Nærri tvö þúsund manns þurft að flýja

Glada Perak-brúin fór í sundur í kjölfar eldgossins í Semeru …
Glada Perak-brúin fór í sundur í kjölfar eldgossins í Semeru í dag. AFP/Indonesia Geology Agency

Nærri tvö þúsund manns hafa þurft að flýja heimili sín eftir að eldgos hófst í fjallinu Semeru á eyjunni Java í Indónesíu í dag. Nærliggjandi þorp hafa orðið fyrir barðinu á eldfjallaösku og monsúnrigningu.

Einn íbúi lýsti skelfingu þegar öskuskýin lögðust yfir þorpið hans.

„Það var dimmt, ég sá ekki neitt. Það rigndi vatni og ösku,“ sagði maðurinn í samtali við AFP-fréttastofuna.

„Ég vissi ekki hvar ég átti að leita skjóls. Ég varð að flýja.“

Virknin enn mjög mikil

Stjórnvöld færðu viðbúnað upp á hæsta stig í kjölfar gossins, en talsmaður hamfaramiðstöðvar í Indónesíu sagði að hærra viðbúnaðarstig þýði að nærliggjandi þorp séu í hættu.

„Á heildina litið er virknin enn mjög mikil.“

Í kjölfar eldgossins hafa 1.979 manns verið fluttir í skjól.
Í kjölfar eldgossins hafa 1.979 manns verið fluttir í skjól. AFP/Juni Kriswanto

Enn sem komið er hefur ekki verið tilkynnt um manntjón eða meiðsli, en 1.979 manns hafa verið fluttir í skjól á ellefu stöðum og hafa að minnsta kosti sex þorp orðið fyrir áhrifum af eldgosinu.

Heimamenn flúðu á mótorhjólum, oft þrír á hverju hjóli ásamt eigum sínum, á meðan aðrir hjálpuðu öldruðum við að komast burt á öruggan hátt. Einn íbúi var þakinn leðju eftir að ösku hafði rignt á hann.

Eldgos varð í Semeru fyrir ári síðan með þeim afleiðingum að minnst 51 lét lífið og meira en 5.000 heimili eyðilögðust.

Enn sem komið er hefur ekki verið tilkynnt um manntjón.
Enn sem komið er hefur ekki verið tilkynnt um manntjón. AFP/Putri
mbl.is