Dularfullar sprengingar á rússneskum flugvöllum

Gervihnattarmynd sýnir rússneskar sprengjuflugvélar á Engels-flugvellinum þar sem önnur sprengingin …
Gervihnattarmynd sýnir rússneskar sprengjuflugvélar á Engels-flugvellinum þar sem önnur sprengingin varð í dag. Ljósmynd/PBC

Að minnsta kosti þrír eru látnir og átta særðir eftir sprengingar á tveimur rússneskum herflugvöllum í dag, öðrum í nágrenni borgarinnar Rjasan, hinum í Saratov.

Enn er óljóst hvað olli sprengingunum en á Rjasan-flugvellinum sprakk eldsneytisflutningabifreið í loft upp.

Héraðsstjóri Saratov lét hafa eftir sér í fjölmiðlum að öryggissveitir rannsökuðu nú „tilkynningar um atvik á tveimur herstöðvum“ auk þess sem Steven Rosenberg, ritstjóri Rússlandsmála hjá breska ríkisútvarpinu BBC, kvað böndin myndu beinast að Úkraínu þar sem sprengingarnar urðu samtímis á tveimur stöðum.

Úkraínsk hermálayfirvöld hafa hins vegar ekkert tjáð sig um málið og eru báðir flugvellirnir í mörg hundruð kílómetra fjarlægð frá landamærum ríkjanna.

Sprengjuflugvélar eru á öðrum vallanna

Á Engels-flugvellinum í Saratov eru rússneskar sprengjuflugvélar af gerðunum Tu-160 og Tu-95 sem borið geta flugskeyti á borð við þau sem Rússar skjóta á borgir og önnur skotmörk í Úkraínu.

Vladimír Pútín forseta hefur verið tilkynnt um atvikin að sögn Dmítrí Peskov, talsmanns Kreml, en Peskov sagði fjölmiðlum aðspurður að hann byggi ekki yfir frekari vitneskju um sprengingarnar en komið hefði fram í rússneskum fjölmiðlum í dag.

Frá Úkraínu hafa tilkynningar borist um stórfellda flugskeytaárás eins og mbl.is greindi frá fyrr í dag og var þar talað um á annað hundrað skeyti.

mbl.is