Skutu yfir 30 flugskeytum á Úkraínu

Kona gengur fram hjá ónýtri byggingu í úkraínska bænum Borodyanka, …
Kona gengur fram hjá ónýtri byggingu í úkraínska bænum Borodyanka, um 60 km frá Kænugarði. AFP/Sergei Supinskí

Rússneskar hersveitir skutu meira en 30 flugskeytum í átt að svæðum víðs vegar um Úkraínu, að sögn úkraínska hersins.

„Við búumst við meira en 30 flugskeytum, sem eru þegar tekin að birtast á ýmsum svæðum. Loftvarnakerfin eru að virka,“ sagði Yury Ignat, talsmaður úkraínska hersins.

Borgarstjóri Kænugarðs, höfuðborgar Úkraínu, segir að 15 flugskeyti hafi verið skotin niður yfir borginni.

Fyrr í morgun sagðist úkraínski herinn hafa skotið niður þó nokkra dróna sem voru settir á loft í Azov-hafi.

Uppfært kl. 9.10:

Einn er látinn og tveir særðir eftir árás Rússa í morgun. 

„Eftir að flugskeyti lenti á byggingu í Golosiivky-héraði hafa borist upplýsingar um að einn hafi látist og tveir særst,“ sagði Vitalí Klitschko, borgarstjóri Kænugarðs. Ekki var um íbúðabyggingu að ræða.

mbl.is