PST varar við Kóranbrennum

Sænsk-danski hægriöfgamaðurinn Rasmus Paludan, leiðtogi stjórnmálaflokksins Stram Kurs, Skýrrar stefnu, …
Sænsk-danski hægriöfgamaðurinn Rasmus Paludan, leiðtogi stjórnmálaflokksins Stram Kurs, Skýrrar stefnu, heldur á Kóraninum skammt frá tyrkneska sendiráðinu í Stokkhólmi í mótmælunum 21. janúar. Kveikti hann síðar í bókinni og vakti gríðarlega reiði Tyrkja með afleiðingum fyrir NATO-viðræður Tyrklands og Svíþjóðar. AFP/Fredrik Sandberg

Norska öryggislögreglan PST tekur öfgamönnum, mótmælendum og öðrum sem til greina koma vara á því að brenna Kóraninn, helgirit múslima, á götum úti til að koma boðskap sínum á framfæri. Slík háttsemi auki hættuna á hryðjuverkum innan marka Noregs auk þess að stefna Norðmönnum á ferðalögum í hugsanlegan háska í sumum ríkjum.

Vakti það tiltæki dansk-sænska öfgamannsins Rasmusar Paludans mikla úlfúð í Tyrklandi að brenna Kóraninn skammt frá sendiráði Tyrklands í sænsku höfuðborginni Stokkhólmi í mótmælum 21. janúar og fordæmdu tyrknesk stjórnvöld að brennan hefði verið með samþykki sænskra yfirvalda þar sem lögregla hefði gefið leyfi fyrir mótmælunum. Fyrir vikið var heimsókn varnarmálaráðherra Svíþjóðar til Tyrklands aflýst samstundis en í henni stóð til að ræða tilslakanir Tyrkja gagnvart NATO-umsókn Svía.

Í Noregi liggur ekkert formlegt bann við Kóranbrennum en PST telur slíkar brennur senda íslömskum öfgamönnum mjög skýr skilaboð. „Eins og við metum stöðuna núna geta Kóranbrennur gert Noreg að raunhæfara skotmarki íslamskra öfgamanna. Það eru eðlileg viðbrögð okkar að greina frá þeirri hættu,“ segir Hedvig Moe, aðstoðarlögreglustjóri PST, við norska ríkisútvarpið NRK.

Hvert lögregluumdæmi meti stöðuna

Föstudaginn 3. febrúar stóðu mótmæli norsku hægriöfgasamtakanna SIAN (Stopp islamiseringen av Norge eða Stöðvum íslamvæðingu Noregs) fyrir dyrum framan við tyrkneska sendiráðið í Ósló en lögregla bannaði þau. Síðustu ár hefur svívirðing Kóransins verið fastur liður í samkomum SIAN og ætlaði allt um koll að keyra í átökum sem brutust út kringum slíka samkomu í lok ágúst 2020 eftir að Fanny Bråten, áhrifamanneskja í SIAN, hélt ræðu sem lauk með því að hún reif blaðsíður úr Kóraninum og hrækti á þær.

Tekur Moe þó fram að PST ætli sér ekki að hlutast til um hvernig einstök lögregluumdæmi taki á samkomum andstæðinga íslam. „Hvað hvert umdæmi gerir byggir á mati og ákvörðunum stjórnenda. Okkar starf er að gera grein fyrir mati á ógn. Umdæmin eru fullfær um að framkvæma sitt mat. Okkar greining gengur aldrei út á að mæla beinlínis með því að samkomum sé aflýst, þær haldnar eða þeim valin önnur staðsetning. Það ákveða umdæmin,“ segir hún.

Ástæðan fyrir því að lögreglan í Ósló veitti ekki leyfi sitt fyrir samkomu SIAN á föstudaginn í síðustu viku er að sögn Martin Strand yfirlögregluþjóns sú að lögregla telur sig ekki geta tryggt öryggi kringum samkomuna á fullnægjandi hátt í ljósi fyrri samkoma. Í kjölfar áðurnefndrar samkomu árið 2020 handtók lögregla tæplega 30 manns auk þess að beita CS-gasi, táragasi, sem fátítt er í Noregi.

NRK

NRKII (mótmælin 3. febrúar bönnuð)

ABC Nyheter

Document.no

mbl.is