Hárlokkur Beethovens gefur vísbendingar um dauða hans

Hárlokkurinn sem var notaður við rannsóknina.
Hárlokkurinn sem var notaður við rannsóknina. AFP

Lifrarskemmdir ollu líkast til dauða tónskáldsins Beethoven fyrir næstum 200 árum síðan. Nokkrar ástæður voru fyrir þeim, þar á meðal áfengisneysla hans.

Þetta kemur fram í niðurstöðum rannsóknar alþjóðlegs hóps vísindamanna á hárlokki þýska tónskáldsins, sem lést 56 ára að aldri í Vín, höfuðborg Austurríkis.

Í rannsókninni reyndu vísindamennirnir að finna mögulegar erfðafræðilegar ástæður fyrir því sem helsta þjakaði Beethoven, þ.e. heyrnarmissir, veikindi í meltingarvegi og lifrarsjúkdómurinn sem á endanum leiddi til dauða hans, að sögn vísindamannsins Markus Nothen við háskólann í Bonn. 

AFP

Við rannsókn á hárlokkinum kom í ljós að erfðafræðilegar ástæður hefðu líklega legið að baki lifrarsjúkdómi hans, auk þess sem merki um lifrarbólgu greindust.

„Við teljum að hann hafi fengið sjúkdóminn vegna samspils erfðafræðilegra þátta, mikillar áfengisneyslu, sem mikið hefur verið fjallað um, og sýkingar af völdum lifrarbólgu,“ sagði Nothen.

mbl.is