Aðeins vinnubrögð frá 13. öld

Sandra Birkenes játar að bakgrunnur hennar í ljósmyndun, félagsmannfræði og …
Sandra Birkenes játar að bakgrunnur hennar í ljósmyndun, félagsmannfræði og fjölmiðlum sé ekki það fyrsta sem fólk flest tengir við byggingu fyrstu stafkirkju Noregs í mörg hundruð ár. Ljósmynd/Aðsend

„Þetta byrjaði allt saman með skipulagsfundi hjá sveitarstjórninni í Valle þar sem Steinar Kyrvestad sveitarstjóri sagðist vilja breyta skipulaginu fyrir Bjugsbakk og byggja þar íbúðir,“ segir Sandra Birkenes, norskur félagsmannfræðingur og listljósmyndari, í samtali við Morgunblaðið en hún hefur tekist á hendur verkefni sem fáir yrðu líklega til að tengja beinlínis við bakgrunn hennar.

Birkenes er verkefnisstjóri byggingar einnar fyrstu stafkirkju sem rís frá grunni í Noregi í næstum því eitt þúsund ár. Kirkjan sú verður reist á byggingarlóðinni Bjugsbakk í Rysstad í Agder-fylki, um 100 kílómetra inn til landsins, beint í norður frá Kristiansand. Rysstad er í hinum rómaða Setesdal undir nær þverhníptum fjallshlíðum við ána Otra.

Birkenes og samstarfsfólk hennar hyggjast reisa nýju kirkjuna, Setesdal stavkirke, skammt frá þeim stað þar sem Hylestad-stafkirkjan var byggð um það bil árið 1175, en hún var rifin árið 1664. Verður nýja kirkjan eins nákvæm eftirmynd Hylestad-kirkjunnar og verða má og hafa þrír módelsmiðir nú lagt meira en eitt þúsund klukkustunda vinnu í að smíða kirkjumódel í þeirri mynd sem nýja kirkjan verður.

Rannsökuðu gömlu kirkjuna í þrjú ár

Svo atburðarásinni af skipulagsfundinum áðurnefnda sé haldið til haga rákust áætlanir sveitarstjóra um íbúðabyggingu á vegg þegar Knut H. Rysstad tók til máls og sagði einfaldlega, eftir því sem Birkenes greinir frá: „Það gerir þú ekki, því þarna ætla ég að byggja stafkirkju!“ Rysstad þessi er nú um stundir stjórnarformaður félags um kirkjubygginguna sem ber heitið Setesdal Stavkyrkje, orðið kirkja skrifað þar kyrkje á nýnorsku.

Líkansmiðirnir Marton Laksesvela, vinstra megin, og Øyvind Jacob, tveir þriggja …
Líkansmiðirnir Marton Laksesvela, vinstra megin, og Øyvind Jacob, tveir þriggja hagleiksmanna sem vörðu eitt þúsund klukkustundum í að smíða hárnákvæmt líkan af gömlu Hylestad-kirkjunni sem sjá má í bakgrunni. Ljósmynd/Aðsend

„Við framkvæmdum rannsókn með jarðsjá þar sem gamla kirkjan stóð og fundum þannig út hve stór grunnflötur hennar var,“ segir Birkenes og bætir því við að tíu eldhugar, allt heimamenn, hafi lagst í ítarlegar rannsóknir á útliti gömlu kirkjunnar. „Þetta tók þrjú ár og allir gáfu vinnu sína, módelsmiðirnir þrír hófu svo sína vinnu þegar útlit gömlu kirkjunnar var tekið að skýrast og þar var ekki kastað til höndunum,“ heldur hún áfram, enda má sjá á myndinni hér á síðunni af kirkjulíkaninu að útlit þess endurspeglar mjög útlit þeirra norsku stafkirkja sem enn standa – þær eru nú 28 talsins.

„Nauðsynlegt var að vanda til verka við undirbúninginn og afla svo mikillar þekkingar sem mögulegt var til að nýta við byggingu stóru kirkjunnar,“ útskýrir félagsmannfræðingurinn en það verkefni hefst ekki fyrr en vorið 2024. „Nú, þegar forvinnunni er lokið, höfum við sótt um styrk frá Agder-fylki til að fjármagna verkefnisstjórastöðuna þar sem hér er um allt of stórt verkefni að ræða til að hægt sé að framkvæma það allt með sjálfboðavinnu.“

Hér sjást þau ótal smáatriði sem líkansmiðirnir þrír glímdu við …
Hér sjást þau ótal smáatriði sem líkansmiðirnir þrír glímdu við í þúsund tíma. Ljósmynd/Aðsend

Hestar og handsmíðuð verkfæri

Hún kveður áformin um stafkirkjubyggingu í Setesdal fljótlega hafa farið að kvisast út og ekki hafi liðið á löngu þar til forsvarsmenn Handverksstofnunar Noregs, Norsk Håndverksinstitutt, settu sig í samband við eldhugana í Agder og lýstu áhuga sínum á að vera með, enda hefðu þeir á prjónunum að smíða líkan af Borgund-stafkirkjunni í Lærdal í Vestland-fylki, en sú kirkja stendur enn, byggð upp úr 1180 samkvæmt aldurgreiningu á timbrinu í henni sem er úr trjám sem felld voru veturinn 1180 – 1181.

„Með því samstarfi sem þá hófst breyttist litla staðbundna verkefnið okkar í Setesdal í rannsóknarverkefni sem teygir anga sína um allt land, en öll framkvæmdin við bygginguna verður eins og við húsbyggingar fyrir 800 árum,“ segir Birkenes.

Hin nafntogaða Borgund-stafkirkja í Lærdal í Vestland-fylki er best varðveitta …
Hin nafntogaða Borgund-stafkirkja í Lærdal í Vestland-fylki er best varðveitta og um leið upprunalegasta stafkirkjan af þeim 28 sem enn finnast í Noregi. Fyrir svartadauða og siðaskipti voru stafkirkjur í Noregi líklega á annað þúsund. Ljósmynd/Fylkisskjalasafn Sognsævar og Firðafylkis

Hún og kirkjusmiðir hennar ætla sér því ekki lítið verkefni og minnir um sumt á Gerplu Halldórs Laxness sem skáldið frá Gljúfrasteini hafði þá reglu um, að nota ekkert orð í bókinni sem hægt væri að sanna að hefði ekki verið til í málinu á 11. öld, þótt reyndar játaði hann síðar í viðtali að orðið peysa væri úr 13. aldar fornfrönsku.

Endurbygging Hylestad-kirkjunnar í Setesdal mun þar með fara fram með fornu verklagi og taka ein sex ár. „Við ætlum að vinna okkar eigið járn, smíða verkfæri, nota hesta til að draga að timbur og reisa alla kirkjuna með þeim vinnubrögðum einum sem tíðkuðust á 13. öld,“ segir verkefnisstjórinn og henni er full alvara.

Svona leit hún líkast til út, kirkjan í Setesdal sem …
Svona leit hún líkast til út, kirkjan í Setesdal sem rifin var árið 1664, tveimur árum áður en Passíusálmar séra Hallgríms Péturssonar komu út. Ljósmynd/Aðsend

Stefna á verklok 2030

Til að fá þennan handverksþátt áætlunarinnar til að ganga upp hefur fornminjavörður Noregs verið fenginn að borðinu auk Fornmunasamtakanna, Fortidsminneforeningin. „Borgund-kirkjuna munum við svo hafa til hliðsjónar, þar sem hún er upprunalegasta stafkirkjan í Noregi, henni hefur lítið verið breytt frá byggingu og þar til nú á dögum. Félaginu um bygginguna hefur einnig verið það mikilvægt að tengja kirkjuna við hinn sterka menningarsögulega blæ sem einkennir Setesdal með því að endurskapa gömlu kirkjuna hve gerst,“ segir Birkenes.

Annað hjartans mál aðstandenda kirkjunnar endurfæddu segir hún vera að almenningur hafi aðgengi til að koma og fylgjast með framkvæmdunum meðan á byggingunni stendur, stafkirkjan skuli helst hafa sama aðdráttaraflið á framkvæmdatíma og hún muni án nokkurs vafa hafa eftir að hún stendur fullkláruð um það bil árið 2030.

Þessi sérkennilega bygging er matargeymsla eða búr að fornum sið, …
Þessi sérkennilega bygging er matargeymsla eða búr að fornum sið, stabbur sem svo heitir á norsku. Hún er við heimili Sigurd Brokke sem situr lengst til hægri. „Þarna fundum við nokkra planka sem hugsanlega eru úr gömlu stafkirkjunni,“ segir Birkenes. Með Brokke eru nokkrir úr hópnum sem kemur að byggingu nýju kirkjunnar. Ljósmynd/Aðsend

„Með fyrirlestrum, viðburðum og móttöku ferðamanna viljum við miðla þeirri þekkingu og þeim menningararfi sem liggur í skilningi okkar á byggingarhefðum og -aðferðum miðalda. Stefna okkar er að rúmlega eitt þúsund handverksmenn komi að verkefninu og öðlist innsýn í verklagið,“ segir Birkenes og bætir því við að ákveðinn grundvallarhópur hagleiksmanna muni starfa við endurreisnina yfir allan byggingartímann.

Verður aldrei vígð

Tekur hún sérstaklega fram að allur þessi mannskapur lyfti verkefninu í hæðir sem hún hefði aldrei ráðið við ein síns liðs. „Mitt hlutverk í þessu öllu saman er að sjá til þess að þeir sem eru hæfir til að byggja stafkirkju fái að taka þátt í að gera það, ég sé um að laða að fjármagn, annast markaðssetningu og stjórnsýslu,“ útskýrir Birkenes sem á nokkra starfsreynslu að baki við fjölmiðla og almannatengsl auk þess að hafa fengist við eins ólíka hluti og mannfræði og ljósmyndun...eða kannski eru það í raun nauðalík fög, bæði snúast um að draga upp mynd.

Dagarnir urðu hvort tveggja langir og margir á smíðaverkstæðinu á …
Dagarnir urðu hvort tveggja langir og margir á smíðaverkstæðinu á meðan líkanið leit dagsins ljós hægt og bítandi, helsta gagnið þegar bygging „alvörukirkjunnar“ hefst á næsta ári. Ljósmynd/Aðsend

Sjálf er Birkenes 35 ára gömul og kemur frá Vennesla sem liggur sunnan Setesdalsins, milli hans og Kristiansand. Hún er hins vegar gift Setesdælingi sem skýrir búsetu hennar þar og eldlegan áhuga á að byggja fyrsta stafkirkjuna í Noregi í mörg hundruð ár. Fjögurra ára dóttir er enn fremur í spilinu.

„Þessi kirkja verður aldrei vígð,“ heldur hún áfram um hitt afkvæmið sitt – þetta sem verður byggt úr timbri, „hún á að vera menningarmiðstöð og safn sem nýtist við menningarviðburði á borð við tónleika og leikhús auk kirkjulegra athafna, svo sem hjónavígslna og jarðarfara. Hún verður námsvettvangur sem miðlar áfram þeirri kunnáttu sem bygging hennar hefur fært okkur,“ segir byggingarstjórinn sem slær botninn í viðtalið með þakklæti sínu og framtíðarsýn.

„Ég er ákaflega þakklát fyrir það traust sem byggingarfélagið sýnir …
„Ég er ákaflega þakklát fyrir það traust sem byggingarfélagið sýnir mér með því að veita mér tækifæri til að stjórna svo spennandi verkefni,“ segir byggingarstjórinn um það sem fram undan er í Setesdal næstu sjö árin. Ljósmynd/Aðsend

„Ég er ákaflega þakklát fyrir það traust sem byggingarfélagið sýnir mér með því að veita mér tækifæri til að stjórna svo spennandi verkefni og ég sé nú þegar þau jákvæðu áhrif sem þessi framkvæmd hefur. Skólar, fagfólk og atvinnulíf á svæðinu sýnir þessu áhuga. Hér er eitthvað á ferð sem höfðar til breiðs aldurshóps og mun ekki síður vekja athygli út fyrir landamæri Noregs,“ segir Sandra Birkenes, félagsmannfræðingur, ljósmyndari og verkefnisstjóri, um þetta hjartans mál þeirra Setesdæla sem opnar glugga að löngu horfnu norsku miðaldasamfélagi.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert