Myndskeið: Bjargað ofan af þaki

Að minnsta kosti átta eru látnir eftir mikil flóð í héraðinu Emilia Romagna í norðurhluta Ítalíu.

Miklar rigningar síðustu tveggja daga ollu því að yfir 20 ár flæddu yfir bakka sína á svæðinu. Þúsundir íbúa hafa þurft að flýja heimili sín.

„Borgin er á hnjánum, eyðilögð og uppfull af sársauka,” sagði Gian Luca Zattini, borgarstjóri Forli. „Þetta er heimsendir.”

Sjö af þeim átta sem létust fundust á svæðinu í kringum Forli og borgina Cesena.

Í meðfylgjandi myndskeiði sést þegar ítalska strandgæslan bjargaði fólki sem hafði leitað skjóls uppi á þaki húss síns í Faenza.

mbl.is