Komust að samkomulagi um hækkun skuldaþaks

Kevin McCarthy segist ætla að klára að semja frumvarpið í …
Kevin McCarthy segist ætla að klára að semja frumvarpið í dag og bera það fyrir öldungadeild þingsins á miðvikudag. AFP

Joe Biden Bandaríkjaforseti hefur náð samkomulagi við Kevin McCarthy, forseta fulltrúardeildar Bandríkjaþings, um að hækka skuldaþak og þar af leiðandi afstýra greiðslufalli ríkissjóðs Bandaríkjanna.

Biden og McCarthy greindu frá samkomulaginu í gær en Biden lýsti því sem nauðsynlegri málamiðlun. Fjármálaráðuneyti Bandaríkjanna hafði áður áætlað að ef ekkert yrði aðhafst myndi ríkissjóður hætta að geta staðið við skuldbindingar sínar 5. júní.

Ríkisútgjöld skuli standa í stað

Öldungadeild Bandaríkjaþings á eftir að samþykkja samkomulagið sem kveður, samkvæmt heimildum fréttastofunnar CBS, meðal annars á um að ríkisútgjöld, að hernaðarútgjöldum undanskildum, skuli standa í stað næstu tvö árin og megi þá hækka um einn hundraðshluta árið 2025.

Viðræður um hækkun skuldaþaksins hafa staðið lengi yfir og Repúblikanar beitt sér fyrir því að skorið verði niður í útgjöldum til menntamála og velferðarverkefna.

31,4 billjónir Bandaríkjadala

McCarthy sagði samkomulagið sögulegt að því leyti að það kveði á um takmörkun ríkisútgjalda með tilheyrandi tilfærslum sem muni lyfta fólki úr fátæk og á vinnumarkaðinn. Engir nýir skattar séu á dagskrá.

Biden sagði samkomulagið vera nauðsynlegt að því leyti að það hafi afstýrt greiðslufalli ríkisins og þeim skelfilegu afleiðingum sem slíkt hefði haft í för með sér fyrir almenna borgara.

Skuldir bandaríska ríkisins hafa vaxið statt og stöðugt síðustu áratugi en aukningin hefur þó verið heldur skarpari síðustu ár. Skuldaþak sjóðsins stendur nú í 31,4 billjónum Bandaríkjadala.

mbl.is