Óttast ekki að Rússum gremjist

USS Gerald R. Ford á Óslóarfirði á þriðjudaginn í síðustu …
USS Gerald R. Ford á Óslóarfirði á þriðjudaginn í síðustu viku. AFP/Terje Pedersen

Norsk stjórnvöld óttast ekki að styggja nágranna sína í Rússlandi með þátttöku bandaríska flugmóðurskipsins USS Gerald R. Ford, stærsta herskips heims, í heræfingum með norska hernum við Norður-Noreg en flugmóðurskipið er nú á norðurleið frá Ósló þaðan sem það sigldi í gærmorgun.

Reiknað er með að fram undan sé æfing í kafbátaleit og að skjóta niður óvinaflugskeyti á æfingunni Arctic Challenge Exercise við Vesterålen þótt herinn verjist allra frétta af því. Raunar vill norski varnarmálaráðherrann Bjørn Arild Gram hvorki segja af né á um hvort flugmóðurskipið muni taka þátt í æfingunum.

„Ég get ekki farið út í nein smáatriði í tengslum við þessar aðgerðir. En við hlökkum til þess að Noregur og aðrir bandamenn fái tækifæri til góðrar þjálfunar með Bandaríkjamönnum í þessari heimsókn,“ segir ráðherra við norska ríkisútvarpið NRK.

Engin ástæða til að kalla ögrun

Hernaðarsérfræðingar segja litlu muna að litið verði á för USS Gerald R. Ford sem ögrun við Rússa. Almennt er talið að þar liggi mörkin við Tromsø og svæðið þar norðan af. Tromsø er við 69. gráðu norðlægrar breiddar en Vesterålen, þar sem heræfingin mun eiga sér stað, er við þá 68.

Óttast Gram varnarmálaráðherra þó ekki að Rússar telji flugmóðurskipið ögrun. „Engin ástæða er til að líta svo á að þarna séu á ferð aðgerðir sem ögra Rússum eða öðrum þjóðum. Hernaðarviðvera Bandaríkjanna og annarra bandalagsríkja á þessum slóðum til æfinga og þjálfunar er alvanaleg. Þetta er eitthvað sem Noregur telur velkomið,“ segir ráðherra.

Alls taka þrettán aðildarríki Atlantshafsbandalagsins NATO þátt í Arctic Challenge Exercise sem í ár er stærsta loftvarnaæfing Evrópu en hún hefur verið haldin annað hvert ár síðan 2013. Æfingin í ár á sér fjórar bækistöðvar, Rovaniemi og Pirkkala í Finnlandi, Kalix í Svíþjóð og Ørland í Noregi þar sem er einn helsti herflugvöllur landsins.

Heimsóknin fjandsamlegt tákn

Kveður Martin Tesli, æðsti yfirmaður mála þar, æfinguna í ár stærri og mikilvægari en nokkru sinni. „Evrópa er á breytingaskeiði. Þar geisar stríð. Við á Norðurlöndunum neyðumst til að sýna samstöðu. Það gerum við með þessari æfingu,“ segir Tesli.

Heimsókn USS Gerald R. Ford, sem hafði fimm daga viðdvöl í Ósló, hefur verið túlkuð svo að þar sýni Bandaríkjamenn klærnar með heimsókn sinni til Noregs. Fælingarmátturinn sé ótvíræður og vissulega ögrun gagnvart Rússum. Á þetta hefur meðal annars Stein Tønnesson, rannsakandi við Friðarrannsóknastofnunina í Ósló, PRIO, bent.

„Heimsóknin skerpir auðvitað á viðbrögðum Rússa gagnvart Noregi og NATO. Klárt mál er að Rússar líta á hana og æfinguna í kjölfarið sem fjandsamlegt tákn,“ segir rannsakandinn en Gram varnarmálaráðherra kveðst hvorki óttast þá táknfræði né aukna umferð rússneskra kafbáta á norsku hafsvæði meðan á æfingunni stendur.

NRK
NRKII (fjöldi fólks fylgdist með í Ósló)
VG

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert