Tilbúnir í gagnsókn en óttast mannfall

Volodimír Selenskí.
Volodimír Selenskí. AFP/Ludovic Marin

Úkraínumenn eru tilbúnir til að efna til gagnsóknar gegn Rússum en óttast mikið mannfall vegna yfirburða þeirra í lofti.

Þetta sagði Volodimír Selenskí Úkraínuforseti í morgun.

Úkraínumenn hafa í marga mánuði talað um að þeir séu að undirbúa umfangsmikla gagnsókn gegn Rússum en Selenskí hefur ítrekað varað við því að úkraínsk stjórnvöld þurfi meiri tíma og fleiri vopn.

Úkraínskir hermenn.
Úkraínskir hermenn. AFP/Anatolii Stepanov

„Mikill fjöldi hermanna mun deyja” ef stjórnvöld í Kænugarði fá ekki vopn til að stöðva Rússa í loftinu, sagði Selenskí.

Rússar hafa gert fjölmargar loftárásir á höfuðborg Úkraínu að undanförnu, þar á meðal einu sinni að degi til, sem er sjaldgæft.

„Allir vita vel að gagnsókn án yfirburða í lofti er mjög hættuleg,” sagði Selenskí.

„Ímyndið ykkur hvernig hermanni líður sem veit að hann hefur ekkert þak og skilur ekki hvers vegna nágrannaþjóðir hafa það,” bætti forsetinn við.

Hann nefndi að aðeins eitt vopn, bandaríska loftvarnarkerfið Patriot, gæti verndað lofthelgina yfir Úkraínu og óskaði eftir fleiri slíkum til Kænugarðs.

„Raunveruleikinn er sá að 50 Patriots munu, að stóru leyti, koma í veg fyrir að fólk láti lífið.”

mbl.is

Bloggað um fréttina