Vill refsa þeim sem bera ábyrgð

Forsætisráðherra heimsækir vettvang slyssins.
Forsætisráðherra heimsækir vettvang slyssins. AFP/PIB

Narendra Modi, forsætisráðherra Indlands, heitir því að þeim einstaklingum sem beri ábyrgð á lestarslysinu mannskæða verði refsað. 

Að minnsta kosti 288 hafa látið lífið eftir að þrjár lestar skullu saman á Indlandi í gær. Þá eru yfir 800 manns slasaðir, þar af margir alvarlega.

Björgunaraðgerðum er nú lokið en samkvæmt yfirvöldum er búið að sækja alla þá sem voru fastir undir lestarbrakinu. BBC greinir frá.

Modi hefur heimsótt vettvang slyssins og sjúkrahús þar sem slösuðum farþegum var veitt aðhlynning. Hét hann því að ríkisstjórn hans myndi gera allt sem í sínu valdi stæði til að tryggja meðferð fyrir þá sem slösuðust.

Rannsókn á tildrögum slyssins er hafin en orsök þess liggur enn ekki fyrir. 

Ríflega tvö þúsund manns eru talin hafa verið um borð þegar lestarslysið varð sem er eitt það mannskæðasta sem hefur orðið á þessari öld.

mbl.is