Hunter Biden ákærður

Feðgarnir Joe og Hunter Biden.
Feðgarnir Joe og Hunter Biden. AFP

Hunter Biden, sonur Joe Biden Bandaríkjaforseta, hefur verið ákærður fyrir brot gegn vopnalögum. Er hann sakaður um að hafa fest kaup á skotvopni þegar hann neytti fíkniefna.

Hunter Biden, sem er 53 ára gamall, var ákærður í tveimur liðum fyrir að hafa logið til um að vera edrú er hann fyllti út eyðublöð fyrir kaupin á byssunni árið 2018.

Þá er hann einnig ákærður fyrir að hafa verið með skotvopnið á sér ólöglega í 11 daga í október sama ár, í ljósi þess að hann gaf upp rangar upplýsingar á eyðublaðinu.

Gæti Biden átt yfir höfði sér allt að 25 ára fangelsisdóm verði hann fundinn sekur. 

Óheppilegt fyrir Joe Biden

Ákæran á hendur Hunter Biden kemur sér illa fyrir föður hans sem hyggst reyna að halda sæti sínu í Hvíta húsinu annað kjörtímabil.

Á mánudaginn tilkynnti dómsmálaráðuneyti Bandaríkjanna að það hefði útnefnt sérstakan saksóknara til að skoða vafasöm viðskipti Hunters Biden á erlendri grundu. Viðskipt­in áttu sér stað meðal ann­ars á ár­un­um 2009-2017, þegar faðir hans, Joe Biden, gegndi embætti vara­for­seta Banda­ríkj­anna.

Re­públi­kan­ar halda því fram að Joe Biden hafi notað stöðu sína sem vara­for­seti til að hjálpa til í viðskipt­um son­ar síns. Þessu hefur Joe Biden neitað.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert