Nokkrar kýr á Bjólu í Rangárvallasýslu hafa drepist vegna salmonellasýkingar

Salmonellasýking hefur greinst í kúm á bænum Bjólu I í Djúpárhreppi í Rangárvallasýslu, að sögn Halldórs Runólfssonar yfirdýralæknis. Héraðsdýralæknirinn á Hellu stöðvaði þegar sölu á mjólk og sláturdýrum og gerði jafnframt aðrar nauðsynlegar varúðarráðstafanir til að fyrirbyggja að smit bærist frá búinu.

Þegar hafa nokkrar kýr drepist á Bjólu og margir gripir eru veikir. Að sögn yfirdýralæknis er hér um alvarlegan sjúkdóm að ræða sem getur einnig borist í fólk. Á Bjólu er rekið mjög snyrtilegt kúabú sem nýlega tók í notkun svokallaðan mjaltaþjón en ekki er talið að búnaður þessi eigi nokkurn þátt í að sýking kom upp á búinu. Hins vegar á lausaganga kúnna við slíkan búnað hugsanlega þátt í því að smitið hefur magnast innan hjarðarinnar. Salmonella-tegundin, sem fundist hefur á Bjólu er Salmonella thypimurium sem er algeng í mávum og hröfnum hér á landi og hefur valdið dauðsföllum í folöldum á Suðurlandi. Í fréttatilkynningu frá yfirdýralækni segir að leitað verði allra leiða til að upplýsa með hvaða hætti sýkillinn hefur borist inn á búið og sýni hafa verið tekin af fóðri og vatni. Sýking af völdum Salmonella typhimurium er sjaldgæf í nautgripum hér á landi og varð síðast vart á Austurlandi árið 1990. Sýking í kúm lýsir sér með niðurgangi, hita og lystarleysi. Nokkuð langan tíma geteur tekið fyrir gripina að ná góðri heilsu og hreinsa sig af sýklinum. Þegar sjúkdómurinn hefur gengið yfir verður búið sótthreinsað áður en sala afurða getur hafist á ný.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert