Landspítalinn verði byggður upp við Hringbraut

Lagt er til að uppbygging Landspítala-háskólasjúkrahúss verði við Hringbraut.

Lagt er til að uppbygging Landspítala-háskólasjúkrahúss verði við Hringbraut.
mbl.is

Nefnd sem skipuð var til að fjalla um framtíðaruppbyggingu Landspítala-háskólasjúkrahúss hefur komist að þeirri niðurstöðu að sjúkrahúsið verði byggt upp við Hringbraut og að nýbyggingar rísi aðallega sunnan núverandi Hringbrautar. Nefndin áætlar að stofnkostnaður við uppbyggingu sjúkrahússins á þessu svæði muni nema um 30 milljörðum króna og framkvæmdirnar taki 14-17 ár.

Jón Kristjánsson heilbrigðisráðherra sagði að hann hefði fullan hug á að fylgja tillögum nefndarinnar eftir og skipa starfshóp til þess. Ljóst væri þó að framkvæmdir hefjist ekki á þessu ári en m.a. ætti eftir að kynna skýrslu nefndarinnar fyrir ríkisstjórninni. Meginrök nefndarinnar fyrir þessari niðurstöðu eru að kostnaður við útfærsluna er minnstur, m.a. vegna bygginganna sem fyrir eru á lóðinni og nýta má til starfseminnar, nálægð við Háskóla Íslands tryggi nauðsynlega samvinnu tveggja mikilvægra stofnana, möguleikar til áframhaldandi uppbyggingar séu tryggðir, aðgengi þeirra sem nýta sér þjónustu spítalans og starfsmanna verður gott, þegar gatnakerfi hefur verið lagfært. Í nefndinni sitja Ingibjörg Pálmadóttir fyrrverandi heilbrigðis - og tryggingamálaráðherra, Magnús Pétursson, forstjóri Landspítala - háskólasjúkrahúss, og Páll Skúlason, rektor Háskóla Íslands. Ritarar starfsnefndarinnar voru skipuð þau Ragnheiður Haraldsdóttir, skrifstofustjóri í heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytinu og Ingólfur Þórisson, framkvæmdastjóri tækni og eigna á Landspítala - háskólasjúkrahúsi. Ákvað nefndin að taka til athugunar þrjár lóðir, Vífilsstaðaland, Fossvogsland og Hringbraut. Í skýrslu nefndarinnar, sem skilað var til heilbrigðisráðherra í morgun, kemur fram að rísi nýbyggingar Landspítala – háskólasjúkrahúss sunnan Hringbrautar þýði það meðal annars að greiðfært verði fyrir sjúklinga, starfsmenn og gesti að loknum fyrirhuguðum framkvæmdum við umferðamannvirki í kringum Hringbraut. Lóð Landspítala - háskólasjúkrahúss við Hringbraut liggi vel við almenningssamgöngum og fyrirhugað sé að byggja nýja umferðarmiðstöð í nágrenni hennar. Nálægð við Háskóla Íslands, sem ætli áfram að byggja við Læknagarð fyrir heilbrigðisvísindadeildir, þekkingaþorp og fleiri rannsóknastofnanir, veiti kennslu- og fræðahlutverki Landspítala - háskólasjúkrahúss mikilvægan stuðning og efli um leið þjónustu við sjúklinga. Þá eru miklir möguleikar taldir á áframhaldandi uppbyggingu á svæðinu. Kostnaður við uppbyggingu við Hringbraut er talinn minnstur af fyrirliggjandi kostum, m.a. þar sem mest af nýtanlegum byggingum er þar. Telur nefndin að stystan tíma taki að sameina starfsemina á einni lóð við Hringbraut meðal annars vegna þess að þar er fyrir nýr barnaspítali, kvennadeild og geðdeild. Gert er ráð fyrir núverandi núverandi húsakosti á lóðinni, húsnæði við Eiríksgötu og nýja barnaspítalanum. Hins vegar gert ráð fyrir því að húsnæði hjúkrunarfræðideildar HÍ, Eirberg, verði rifið. Kostnaður við uppbyggingu nýs húsnæðis fyrir hjúkrunarfræðideildina er ekki meðtalinn, enda verkefni sem er ekki á vegum spítalans.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert