Meirihluti Íslendinga vill að teknar verði upp viðræður um aðild að ESB

Niðurstöður viðhorfsrannsóknar, sem Gallup gerði fyrir Samtök iðnaðarins dagana 14. til 26. febrúar, sýna svo að ekki verður um villst, að yfirgnæfandi meirihluti þjóðarinnar telur að hefja eigi viðræður um aðild að ESB. Þetta kemur heim og saman við afstöðu félagsmanna Samtaka iðnaðarins í könnun sem Gallup gerði sl. haust.

Við spurningunni: „Ertu hlynntur eða andvígur aðild Íslands að Evrópusambandinu?“ sögðust 52% hlynnt aðild, 23% hvorki né og 25% andvíg. Á einu ári hefur þeim, sem eru hlynntir aðild, fjölgað um 9 prósentustig. Þegar spurt var um afstöðu til evrunnar sögðust 52% hlynnt því að hún yrði tekin upp sem gjaldmiðill í stað krónunnar, 12% hvorki né en 33% andvíg. Frá því í ágúst hefur þeim, sem eru hlynntir upptöku evrunnar, fjölgað um 11 prósentustig en þeim, sem eru á móti, fækkað að sama skapi. Við spurningunni: „Telur þú að það sé gott eða slæmt fyrir efnahag Íslands í heild að ganga í ESB?“ sögðu 67% það gott, 14% hvorki né en 20% töldu það slæmt. Þá var spurt: „Ertu hlynntur eða andvígur því að taka upp aðildarviðræður við ESB til að ganga úr skugga um hvað Íslandi stendur til boða við aðild?“ Hér er niðurstaðan svo afdráttarlaus að ekki verður um deilt því að 91% sagðist hlynnt, fjögur prósent hvorki né en 5% andvíg. Í ályktun sem Iðnþing samþykkti í morgun segir m.a.: „Samtök iðnaðarins hafa mótað sér þá stefnu að rétt sé að sækja um aðild að Evrópusambandinu. Rökin eru fyrst og fremst efnahagsleg og lúta að starfsskilyrðum fyrirtækja á Íslandi og lífskjörum almennings. Önnur mikilvæg rök varða fullveldi landsins og þátttöku við mótun og töku ákvarðana sem snerta hagsmuni og framtíð þjóðarinnar á flestum sviðum.“ Samtök iðnaðarins.
mbl.is