Segir DV stunda skáldskap

Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, hefur sent frá sér yfirlýsingu vegna skrifa DV í dag og að undanförnu um hann og samstarfsmenn hans.

Yfirlýsing Kára er svohljóðandi:

„Á undanförnum vikum hafa birst í DV greinar um mig og samstarfsmenn mína sem voru að öllum líkindum skrifaðar til þess að gefa það í skyn að við hefðum stundað vafasöm viðskipti með hlutabréf í því fyrirtæki sem við vinnum hjá.

Ég ætla mér ekki að svara þeim skáldskap enda er skáldskapur þess eðlis að annað hvort nýtur maður hans eða ekki. Maður svarar honum ekki.

Í dag birtist enn ein greinin um okkur í DV undir fyrirsögninni „Keyptu í FBA fyrir peninga frá Panama“. Helmingur fyrirsagnarinnar er sannur. Við keyptum hlut í FBA en seinni helmingur fyrirsagnarinnar er hreinn skáldskapur, kaupin voru fjármögnuð af FBA sjálfum og höfðu ekkert með ríki í Suður-Ameríku að gera.

Kaupin voru gerð í gegnum fyrirtæki í Luxemborg sem hafði þann tilgang einan að eiga þessi hlutabréf enda var það alsiða á þeim tíma að hýsa hlutabréfaeign í slíkum fyrirtækjum.“

mbl.is