Álitsgerð kærunefndar jafnréttismála marklaus

Jón Steinar Gunnlaugsson, lagaprófessor við Háskólann í Reykjavík, heldur því fram að álit kærunefndar jafnréttismála um skipun hæstaréttardómara sé marklaust. Þetta kom fram í máli hans á fundi Varðar, fulltrúaráðs sjálfstæðisfélaganna í Reykjavík, sl. miðvikudag, þar sem fjallað var um jafnréttismál.

Nefndin skautar fram hjá ákvæði

Jón Steinar benti á að kærunefndin hefði fengið til úrlausnar hvort konunni, sem kærði skipunina í dómaraembættið, hefði verið mismunað vegna kynferðis. Í lögunum um jafna stöðu og jafnan rétt karla og kvenna sé kveðið á um að atvinnurekendum sé óheimilt að mismuna umsækjendum um starf á grundvelli kynferðis. Í 3. málsgrein 24. greinar laganna sé sett regla um þetta úrlausnarefni, þar sem segir að ef leiddar séu líkur að beinni eða óbeinni mismunun vegna kynferðis við ráðningu í starf, þá verði atvinnurekandinn að sýna fram á að aðrar ástæður en kynferði hafi legið til grundvallar ákvörðun hans.

"Þegar nefndin fjallar um þetta er það nauðsynleg forsenda niðurstöðu hennar að líkur teljist hafa verið leiddar að því að um beina eða óbeina mismunun hafi verið að ræða. Nefndin kemst að niðurstöðu sinni en skautar algjörlega framhjá þessu ákvæði," sagði hann.

Vitnaði Jón Steinar í niðurstöðu kærunefndarinnar þar sem umrætt lagaákvæði er tekið upp en síðan segi nefndin: "Þykir kærða [dómsmálaráðherra] ekki hafa tekist á málefnalegan hátt að sýna fram á að aðrar ástæður en kynferði hafi legið til grundvallar ákvörðun hans."

"Þetta er ekki hægt að gera," sagði Jón Steinar. "Það verður fyrst að færa rök að því að líkur liggi fyrir í málinu um að um mismunun vegna kynferðis hafi verið að ræða. Ef engar slíkar líkur eru leiddar, þá lýkur málinu þar með. Þetta gerir að mínu mati álitsgerðina marklausa. Nefndin sleppir því að afgreiða alveg nauðsynlega forsendu þess að hægt sé að fjalla um málið á þessum grundvelli," sagði hann.

Engar líkur leiddar að því að um mismunun hafi verið að ræða

Jón Steinar tók einnig fram að það væri alveg augljóst að engar líkur væru á því að um mismunun vegna kynferðis hefði verið að ræða í þessu máli.

"Ástæðan er sú að þarna sóttu fleiri umsækjendur af báðum kynjum um embættið. Rökstuðningur ráðherrans fyrir skipuninni snertir ekki kynferði og varð til þess, að sá sem skipaður var í embættið var líka tekinn fram fyrir aðra karlumsækjendur. Það er alveg augljóst að það standa engar líkur til þess að kynferði eigi einhvern hlut að máli við þessar aðstæður," sagði hann.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka