Framlag Íslendinga í Kabúl mikilvægt

Davíð og Ástríður heilsa Bill og Hillary í dag.
Davíð og Ástríður heilsa Bill og Hillary í dag. mbl.is/Júlíus

Bill Clinton, fyrrverandi forseti Bandaríkjanna, sagði eftir fund með Davíð Oddssyni, forsætisráðherra, í dag að stjórn Íslendinga á alþjóðaflugvellinum í Kabúl í Afganistan vera mjög mikilvæga. Þakkaði hann Íslendingum fyrir störf sín á flugvellinum þegar hann talaði við blaðamenn eftir fundinn.

Þá sagði Clinton að Osama bin Laden og al-Qaeda hryðjuverkasamtökin vera helstu ógnina við öryggi Bandaríkjanna og því mikilvægt að stjórn Afganistans sé trygg. Hann sé því ánægður með þetta framlag. Spurður um hvernig honum finnist tengsl ríkisstjórnar George Bush, Bandaríkjaforseta, við bandamenn í Evrópu sagði hann þau fara batnandi. Til langs tíma litið hefðu Bandaríkin og þjóðir Evrópu ekki annan kost en að vinna saman að úrlausn ýmissa mála.

Davíð Oddsson og Ástríður Thorarensen tóku á móti Hillary og Bill Clinton á heimili sínu klukkan rúmlega þrjú í dag. Ræddu þau saman í um 45 mínútur og gáfu síðan blaðamönnum færi á að bera fram spurningar. Davíð sagði að þeir hefðu ekki rætt framtíð varnarliðsins á keflavíkurflugvelli. Úr því máli hefðu þeir leyst á sínum tíma þegar Clinton var forseti ásamt Al Gore, þáverandi varaforseta.

Clinton lét þess getið eftir fundinn hversu þakklátur hann væri fyrir þann vinskap sem Davíð Oddsson hefði ávallt sýnt honum og raunar íslenska þjóðin öll. „Ég vil líka segja að ég á erfitt með að trúa því að þú hafir verið veikur,“ sagði Clinton síðan og beindi orðum sínum til Davíðs sem hefur, eins og kunnugt er, átt við veikindi að stríða. „Þú lítur út fyrir að vera á góðri leið með að ná heilsu, þú lítur vel út og ég er afar glaður yfir því að hitta þig aftur,“ sagði Clinton við Davíð. Davíð sagðist vera allur hressari eftir þessa hresandi heimsókn.

Hillary þakkaði Davíð Oddssyni fyrir foyrstu hans við að afla Bandaríkjunum stuðning. Einnig bæri að þakka honum og ríkisstjórninni fyrir að styðja sjálfbæra orkuframleiðslu á Íslandi, sem hún taldi geta haft áhrif í Bandaríkjunum. Um afstöðu sína til veru varnarliðsins á Keflavíkurflugvelli sagði hún verið að vinna að lausn.

Bæði Bill og Hillary sögðust sannfærð um að demókratinn John Kerry myndi vinna komandi forsetakosningar í Bandaríkjunum í nóvember. Aðspurð um þeirra framtíð sagðist hann muna styðja hana í hverju sem hún tekur sér fyrir hendur, enda hafi hún stutt hann í 27 ár. Nú eigi hann að styðja hana næstu 27 árin.

Davíð Oddsson og Ástríður Thorarensen taka á móti Bill og …
Davíð Oddsson og Ástríður Thorarensen taka á móti Bill og Hillary Clinton í dag. mbl.is/Björgvin
mbl.is