Gjöld á sterku víni og tóbaki hækkuð um 7%

Áfengisgjald á sterku víni hækkar um 7% samkvæmt frumvarpi sem …
Áfengisgjald á sterku víni hækkar um 7% samkvæmt frumvarpi sem Alþingi samþykkti í kvöld.

Alþingi samþykkti í kvöld lagafrumvarp um að áfengisgjald á sterku víni hækki um 7% og tóbaksgjald hækki einnig um 7%. Áfengisgjald af léttu víni og bjór hækkar ekki. Reikna má með að smásöluverð á sterku víni hækki um u.þ.b. 5,6% og verð á tóbaki um 3,7% að jafnaði. Tekjuauki ríkissjóðs vegna þessara hækkana nemur allt að 340 milljónum króna á ársgrundvelli og áætluð áhrif á vísitölu neysluverðs eru talin verða um 0,08%.

Fjármálaráðherra lagði frumvarpið fram á Alþingi í kvöld og það fór hraðferð í gegnum þingið og var samþykkt laust fyrir klukkan 22. Öðluðust lögin þegar gildi.

Fram kemur í greinargerð með frumvarpinu, að áfengisgjald og tóbaksgjald hafi ekki hækkað síðan í lok nóvember 2002 og ljóst sé að þróun þeirra gjalda hafi ekki verið í samræmi við almennt verðlag og í raun hafi þau lækkað að raungildi. Tillaga um hækkun nú sé í samræmi við þróun almenns verðlags á síðustu árum en almenn vísitala neysluverðs hafi hækkað um u.þ.b. 7% frá því að þessi gjöld hækkuðu síðast. Í frumvarpinu er þó lagt til að áfengisgjald léttra vína og bjórs verði óbreytt, en það hefur ekki breyst síðan 1998.

Þingmenn stjórnarflokkanna og Vinstrihreyfingarinnar-græns framboðs studdu frumvarpið á Alþingi í kvöld en þingmenn Samfylkingar og Frjálslynda flokksins sátu hjá.

mbl.is