Yfirmenn ríkislögreglustjóra hefðu átt að leiðrétta röng ummæli

Verjendur í Baugsmálum í réttarsal.
Verjendur í Baugsmálum í réttarsal. mbl.is/Ásdís

Fjallað var í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag um kröfu fimm einstaklinga, tengdum Baugi Group, þess efnis að rannsókn á meintum skattalagabrotum þeirra verði úrskurðuð ólögleg, eða að yfirmenn ríkislögreglustjóra teljist vanhæfir í málinu.

Málareksturinn er á vegum fimm einstaklinga sem allir eru tengdir Baugi Group, þeirra Jóns Ásgeirs Jóhannessonar, Jóhannesar Jónssonar, Kristínar Jóhannesdóttur, Tryggva Jónssonar og Stefáns H. Hilmarssonar. Meint brot eru til rannsóknar hjá ríkislögreglustjóra, en engin ákæra hefur enn verið gefin út.

Lögmenn fimmenningana héldu því m.a. fram fyrir dómi í dag að brotið hafi verið gegn rétti þeirra til þess að teljast saklausir uns sekt er sönnuð þar sem yfirmenn ríkislögreglustjóra hafi þá skoðun að þeir séu sekir. Var vísað í viðtal við Harald Johannessen ríkislögreglustjóra í Blaðinu þar sem hann sagði að rannsókn á skattamálunum muni fara fyrir dóm sem skattsvikamál.

Einnig var vísað í ummæli Jóns H. Snorrasonar, saksóknara efnahagsbrotadeildar ríkislögreglustjóra, einnig í Blaðinu, þar sem hann sagði að ef einhver bryti af sér á þessu sviði lenti hann hjá efnahagsbrotadeild til rannsóknar.

Gestur Jónsson, verjandi Jóns Ásgeirs, sagði fyrir réttinum í dag að svo virðist sem Jón H. Snorrason ætli sér að nota þá vörn að þessi orð séu ekki rétt höfð eftir tvímenningunum. Það gangi hins vegar ekki upp, þar sem þeir hafi enga tilraun gert til að leiðrétta ummælin, sem þeir hefðu átt að gera séu þau ekki rétt eftir höfð, ella verði þau viðtekinn sannleikur. Jón H. sagði hins vegar ljóst, að ákveðin ummæli séu ekki í samhengi, og ljóst megi vera af umfjöllun annarra fjölmiðla hvað átt hafi verið við. Með ummælum sínum hafi yfirmenn ríkislögreglustjóra ekki tekið afstöðu til sektar eða sakleysis sakborninga.

Að loknum málflutningi var málið tekið til úrskurðar hjá Eggerti Óskarssyni, héraðsdómara. Ekki er ljóst hvenær hann mun kveða upp úrskurð í málinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert