Málflutningur um frávísunarkröfu vegna olíusamráðsákæru

Málflutningur í máli gegn nýverandi og fyrrverandi forstjórum olíufélaganna stendur …
Málflutningur í máli gegn nýverandi og fyrrverandi forstjórum olíufélaganna stendur nú yfir í Héraðsdómi Reykjavíkur mbl.is/Sverrir

Munnlegur málflutningur hófst í Héraðsdómi Reykjavíkur í morgun um þá kröfu fyrrverandi og núverandi forstjóra þriggja olíufélaga um að ákæru á hendur þeim fyrir ólöglegt samráð verði vísað frá. Frávísunarkrafan var lögð fram þegar ákæran var þingfest í héraðsdómi fyrr í janúar.

Ríkissaksóknari gaf út ákæru um miðjan desember á hendur Einari Benediktssyni, forstjóra Olíuverzlunar Íslands, Geir Magnússyni, fyrrverandi forstjóra Olíufélagsins – sem nú heitir Ker, og Kristni Björnssyni, fyrrverandi forstjóra Skeljungs. Eru þeir ákærðir fyrir meint brot gegn samkeppnislögum, fyrir að hafa haft ólögmætt samráð, ýmist sjálfir eða fyrir milligöngu undirmanna, með það að markmiði að hafa áhrif á og koma í veg fyrir samkeppni.

Við þingfestingu ákærunnar lögðu verjendur fram frávísunarkröfu og rökstuddu hana m.a. með því, að ákæra í málinu væri ekki í samræmi við lög um meðferð opinberra mála. Verknaðarlýsing væri óskýr hvað varðar hlut sakborninga í ætlaðri refsiverðri háttsemi. Ákæran sé hlaðin skriflegum útlistunum og málflutningi um ætlaða refsiverða háttsemi þeirra félaga sem ákærðu stýrðu sem ekki á heima í ákæruskjali.

Í kröfunni segir jafnframt að einstaklingum verði ekki gerð refsing við þeirri háttsemi sem lýst sé í ákæru. Ákæran sé ekki reist á viðhlítandi rannsókn sakargifta. Við rannsókn málsins og við útgáfu ákæru hafi verið brotið gegn reglum um réttarstöðu sakborninga með þeim hætti að ekki verður bætt úr undir rekstri málsins. Útgáfa ákæru í málinu sé andstæð jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar. Þá sé refsikrafa í málinu andstæð banni við því að leggja oftar en einu sinni refsingu á aðila fyrir sömu háttsemi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert