Jóhannes Jónsson mætti til skýrslutöku í héraðsdómi

Jóhannes Jónsson, oft kenndur við Bónus, mætti til skýrslutöku í Héraðsdóm Reykjavíkur eftir hádegi í dag, en hann var kallaður sem vitni í Baugsmálinu svokallaða. Sigurður Tómas Magnússon, settur ríkissaksóknari, spurði Jóhannes m.a. út í tengsl hans við Baug og fjárfestingarfélagið Gaum. Þá spurði Sigurður Tómas Jóhannes ítarlega um skemmtibátinn Thee Viking og eignarhald á honum.

Jóhannes svaraði því játandi þegar hann var spurður hvort hann hefði notað Viking bátana tvo, Viking I og Viking II, sem voru keyptir árin 1996 og 1997 og voru forverar skemmitbátsins Thee Viking. Hann sagði að hann hefði notað bátana til einkanota, en Viking I sagðist hann hafa notað einu sinni eða tvisvar. Jóhannes kvaðst muna eftir því að hafa boðið verslunarstjórum í siglingu auk þess sem saumaklúbbur eiginkonu sinnar hefði einnig notað bátinn. Þá hafði hann haft aðsetur í bátnum í þau fáu skipti sem hann hafi farið þangað.

Jóhannes sagði bátana hafa verið keypta til þess að hafa ánægju af þeim. Þetta væri sambærilegt því að hundruð Íslendinga eigi hús í útlöndum. Thee Viking hefði hinsvegar vakið mikla athygli sökum þess, að því er virtist, að báturinn hefði verið á floti. Jóhannes sagði jafnframt að það hefði verið sinni fjölskyldu að meinlausu þótt Jón Gerald Sullenberger, og hans fjölskylda, hafi notað bátinn mest.

Aðspurður sagði Jóhannes að sonur sinn, Jón Ásgeir Jóhannesson, hefði verið í mestum samskiptum við Jón Gerald vegna bátsins. Jóhannes sagðist hafa litið á eignarhaldið með þeim augum að það kæmi að því að gerður yrði samningur um það hvernig eigninni yrði háttað til framtíðar. Málin fóru hinsvegar ekki á þann veg.

Varðandi seinni bátinn sagði Jóhannes aðspurður kannast við að hafa komið að kaupunum á honum. Hann hafi verið fjármagnaður með fé frá Gaumi, en hann kvaðst ekki vita hvort Gaumur hafi átt þátt í því að greiða rekstrarkostnað og af lánum vegna bátsins.

Skýrslutakan yfir Jóhannesi hófst um kl. 14 í dag og stóð til 16.

Jafnframt var tekin skýrsla af Sigfúsi R. Sigfússyni, fyrrverandi forstjóra Heklu, og var hann spurður út í sín tengsl við Fjárfar. Hann sagði m.a. að það hefði aldrei verið haldinn fundur í félaginu sem hann hafi verið viðstaddur. Þá sagði hann einnig að félagið hefði verið leynifélag.

Hann var einnig spurður að því hvort hann hefði komið í skemmtibátinn Thee Viking. Sigfús játaði því og sagðist hafa verið á vegum Vífilfells. Þar var hann ásamt Kaupþingsmönnunum Sigurði Einarsyni og Hreiðari Má Sigurðssyni.

Á morgun verða fleiri vitni kvödd til skýrslutöku í Héraðsdómi Reykjavíkur. Meðal þeirra sem bera vitni eru Kristín Jóhannesdóttir, dóttir Jóhannesar Jónssonar og systir Jóns Ásgeirs Jóhannessonar, og Jóhanna Guðmundsdóttir, eiginkona Jóns Geralds Sullenberger.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert