Leppuðu eignarhald á Fjárfari

Eftir Rúnar Pálmason runarp@mbl.is
Helga Gísladóttir, fyrrum eigandi 10-11 verslananna, sagði fyrir dómi í gær að hún hefði í tvígang verið skráð sem meirihlutaeigandi í Fjárfari en hefði í raun aldrei átt neitt í félaginu. Í seinna skiptið, í desember 2000, var hún skráður eigandi í um þrjár vikur og kom fram hjá eiginmanni hennar, Eiríki Sigurðssyni, að það var gert að beiðni Jóns Ásgeirs Jóhannessonar, forstjóra Baugs Group.

„Þetta var greiði," sagði Eiríkur.

Þau Eiríkur og Helga stofnuðu 10-11 verslanakeðjuna en seldu hana til Jóns Ásgeirs Jóhannessonar árið 1998. Raunar sagði Eiríkur, spurður af Gesti Jónssyni, verjanda Jóns Ásgeirs, að Jón Ásgeir hefði keypt fyrirtækið fyrir hönd ótilgreinds kaupanda.

Eiríkur Sigurðsson bar vitni á undan eiginkonu sinni Helgu. Spurður af Sigurði Tómasi Magnússyni, settum ríkissaksóknara, sagði hann að haustið 2000, líklega í nóvember eða desember, hefði Jón Ásgeir beðið sig um greiða; að Eiríkur yrði skráður eigandi að Fjárfari í einhverja daga. Hann hefði samþykkt það en úr varð að Helga Gísladóttir var skráður eigandi Fjárfars í um þrjár vikur. Þau hefðu einungis verið eigendur að Fjárfari að nafninu til. Um þetta hefði Helgi Jóhannesson stjórnarformaður séð. Fram kom í gær að um þetta leyti hafði Íslandsbanki gengið eftir því að fá upplýsingar um eigendur Fjárfars en félagið hafði tekið lán hjá bankanum. Í ársreikningi Fjárfars árið 1999 var Helga skráð sem eigandi að 90% hlutafjár í félaginu en Eiríkur sagði að það stæðist ekki.

Nánar er fjallað um þetta í Morgunblaðinu í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert