Segir ásetning um bókhaldsbrot fullsannaðan

Gestur Jónsson og Jakob R. Möller, verjendur Jóns Ásgeirs Jóhannessonar …
Gestur Jónsson og Jakob R. Möller, verjendur Jóns Ásgeirs Jóhannessonar og Tryggva Jónssonar, í Héraðsdómi Reykjavíkur. mbl.is/G. Rúnar

Sigurður Tómas Magnússon, settur ríkissaksóknari í Baugsmálinu, sagði í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag, að fullsannaður væri sá ásetningur þeirra Jóns Ásgeirs Jóhannessonar og Tryggva Jónssonar, að hafa áhrif á árshlutauppgjör Baugs hf. árið 2001 með því að láta útbúa tilhæfulausan kreditreikning og kredityfirlýsingu.

Sagði Sigurður Tómas, að annað væri útilokað en að þeirri hugmynd hafi lostið niður í huga þeirra Jóns Ásgeirs og Tryggva, þegar verið var að ganga frá árshlutauppgjöri félagsins, að nauðsynlegt væri að bæta afkomuna Sigurður en ljóst hefði verið, að afkoma Baugs hafi á þessu tímabili verið lakari en menn gerðu ráð fyrir. Tryggvi hefði þá hringt í hendingskasti í Jón Gerald Sullenberger, framkvæmdastjóra Nordica, og fengið hann til að útbúa tilhæfulausan kreditreikning. Það sama hafi átt við varðandi SMS í Færeyjum.

Þegar frá leið hafi Tryggvi hafi farið að hafa áhyggjur af þessu enda hefði hann ekki viljað að þetta stæði í bókhaldinu og þessar færslur hefðu verið bakfærðar að mestu árið 2001 og 2002. Það hefði ekki komið sér illa því þá hefðu forsvarsmenn fyrirtækisins verið farnir að huga að því að taka það af markaði.

Sigurður Tómas sagði, að fjárhæðir kreditfærslnanna tveggja væru úr takti við viðskipti við viðkomandi fyrirtæki og þær væru báðar frá fyrirtækjum, sem hefðu átt mikið undir Baugi. Þá hefðu forsvarsmenn fyrirtækjanna tveggja verið í sérstöku vinasambandi við forsvarsmenn Baugs á þessum tíma. Engin undirgögn lægju að baki þessum reikningum og hvorugur þeirra hefði verið innheimtur.

Þá hefðu engir af framkvæmdastjórum verslunarfyrirtækja Baugs haft hugmynd um þessa reikninga, sem hefðu átt að koma til lækkunar á viðskiptakröfum. Raunar hefðu engin viðskipti verið við SMS. Greinilega hefði tilgangurinn verið, að búa til tilhæfulausan hagnað.

Settur ríkissaksóknari fjallaði einnig í morgun nokkuð um þann ákærulið, sem snýr að meintum fjárdráttarbrotum vegna skemmtibátsins Thee Viking á tímabilinu 20. janúar 2000 til júní 2002. Ákært er vegna 31 reiknings, samtals upp á 32 milljónir, frá Nordica Inc. á Baug en ákæruvaldið heldur því fram að reikningarnir hafi verið Baugi óviðkomandi heldur verið vegna af afborgana af lánum og kostnaði við Thee Viking.

Sigurður Tómas sagði, að báturinn hefði verið skráður eign félags í eigu Jóns Geralds Sullenbergers en eigendur Gaums hefðu talið sig eiga hlut í bátnum og ákæruvaldið héldi því fram, að Gaumur hefði í raun verið stærsti eigandi bátsins. Félagið hafi hins vegar fallið frá eignarréttatilkalli sínu eftir að samkomulag var gert í kjölfar málaferla í Bandaríkjunum.

Sigurður Tómasa sagði að framburðir ákærðu um bátinn hafa tekið gífurlegum breytingum og þeir framburðir væru oft í miklu ósamræmi við framburð vitna. Sagði hann að verjendur myndu væntanlega halda því fram, að málið væri reist á tölvupóstum frá Jóni Gerald, sem væru hugsanlega falsaðir og því lítið mark takandi á. Sigurður Tómas sagði, að ákærðu hefðu aldrei haldið því fram við yfirheyrslu hjá lögreglu, að tölvupóstar hafi verið falsaðir, og þeir tölvupóstar, sem liggja fyrir, veita mikilvægar vísbendingar um sekt Jóns Ásgeirs og Tryggva. Sagði saksóknari, að dómarar yrðu að taka mið af gögnum málsins og framburði í heild þegar dómur væri kveðinn upp.

Sigurður Tómas sagði, að upphaf bátaeignarinnar mætti rekja til sameiginlegs áhuga Jóns Ásgeirs og Jóns Geralds á bátum. Fyrsti báturinn hefði verið Gipsy Queen sem síðar fékk nafnið Icelandic Viking I. Gögn væru um, að þeir Jón Ásgeir og Jón Gerald hafi keypt bátinn saman og Jóhannes Jónsson hefði borið, hugsunin hefði verið að fjölskyldur hans og Jóns Geralds hafi átt að nota bátinn saman.

Þá væri engum vafa undirorpið að lán, sem bandaríski bankinn Ready State Bank veitti fyrir bátakaupunum, hefði verið tryggt með bankaábyrgð í nafni Bónus hjá Spron.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert