Skrifað undir samkomulag við Norðmenn um varnarmála

Jonas Gahr Støre og Valgerður Sverrisdóttir skrifa undir samkomulagið í …
Jonas Gahr Støre og Valgerður Sverrisdóttir skrifa undir samkomulagið í Ósló í dag. Holm, Morten

Valgerður Sverrisdóttir, utanríkisráðherra, og Jonas Gahr Støre, utanríkisráðherra Noregs, skrifuðu laust fyrir klukkan 12 undir samkomulag í Ósló um samstarf í varnarmálum, sem hefur það að markmiði að efla samstarf um skipulagningu og um aðgerðir flugsveita, sjóhers og landhelgisgæslu á Íslandi og hafsvæðinu umhverfis Ísland. Síðar í dag mun Valgerður undirrita yfirlýsingu um samstarf við Dani.

Í samkomulaginu við Norðmenn segir, að markmið þess sé að staðfesta pólitískan vilja til þess að víkka samstarf milli norskra og íslenskra stjórnvalda á friðartímum í málum, sem varða öryggi, varnir, viðbúnað og björgun á Norður-Atlantshafssvæðinu.

Í samningnum við Norðmenn segir m.a., að samningsaðilarnir hyggist efna til samráðs milli embættismanna hlutaðeigandi ráðuneyta á hálfs árs fresti, til skiptis í Noregi og á Íslandi. Áætlun um samráðsfundi verður tekin saman reglulega og skulu aðilarnir samþykkja hana. Munu þjóðirnar skiptast á upplýsingum um tengiliði úr röðum embættismanna hlutaðeigandi ráðuneyta og um hugsanlega tengiliði innan opinberra stofnana. Þá hyggjast ríkin efla tengsl milli lögreglu- og öryggismálayfirvalda sinna.

Noregur hyggst leggja sitt af mörkum til menntunar og þjálfunar íslensks starfsliðs, meðal annars á sviði flugeftirlits og viðeigandi stjórnunar, eftir nánara samkomulagi með hliðsjón af tímalengd og umfangi. Noregur hyggst enn fremur leggja sitt af mörkum til áframhaldandi námskeiðahalds fyrir íslenskt starfslið í upplýsingaöflun og um öryggismál.

Löndin hyggjast undirbúa gerð samnings sem fjallar m.a. upplýsingaskipti viðvíkjandi eftirliti með skipaferðum, um leitar- og björgunarþjónustu, hugsanlegt samstarf um öflun tækjabúnaðar, m.a. nýrra björgunarþyrlna, og um viðbúnað á sviði almannavarna.

Þá ætla löndin að auka tækifæri til heimsókna og æfinga og til að stunda annars konar varnarstarfsemi, meðal annars með tilstyrk sérsveita, her- og varðskipa og norskra orrustuflugvéla og eftirlitsflugvéla á Íslandi og í íslenskri loft- og landhelgi.

Íslensk stjórnvöld munu veita norsku starfsliði og starfsemi, sem tengist samstarfsverkefnum á íslensku yfirráðasvæði, stuðning viðtökuríkis. Ísland mun bera kostnað vegna staðsetningar liðsmanna, kosts og nauðsynlegs stuðnings á landi og vegna notkunar aðstöðu í Keflavíkurstöðinni.

Í samningnum segir, að hvor aðili um sig skuli bera þann kostnað sem tengist eigin starfsemi nema því aðeins að aðilarnir verði einhuga um annað eða að annað leiði af þessu samkomulagi eða tæknilegum samningum sem eru grundvallaðir á því.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert