Bann lagt við tilteknum athöfnum hlutafélags en ekki einstaklings

Sigurður Tómas Magnússon, settur ríkissaksóknari í Baugsmáli.
Sigurður Tómas Magnússon, settur ríkissaksóknari í Baugsmáli. mbl.is/RAX

Átta ákæruliðum í Baugsmálinu, þar sem Jóni Ásgeiri Jóhannessyni, forstjóra Baugs Group var gefið að sök brot gegn lögum um hlutafélög með því að láta veita lán af fjármunum Baugs hf. til Fjár­festingar­félagsins Gaums, Fjárfars og Kristínar Jóhannesdóttur systur sinnar á árunum 1999-2001, var öllum vísað frá dómi í dag.

Í forsendum dómsins segir, að í þeim ákvæðum laga um hlutafélög, sem ákæruvaldið telji Jón Ásgeir hafa brotið, sé lagt bann við tilteknum athöfnum hluta­félags en ekki einstaklings.

„Samkvæmt þessu er verulegur brestur á að refsiheimild 104. gr. sé svo skýr að hægt sé að dæma einstakling á grundvelli hennar. Af þessari ástæðu og með vísan til 69. gr. stjórnarskrárinnar er óhjákvæmilegt að vísa II. kafla ákærunnar, ákæruliðum 2-9, frá dómi," segir í dómnum sem Héraðsdómur Reykjavíkur kvað upp í dag.

10. ákærulið er einnig vísað frá dómi, en þar var Jóni Ásgeiri gefið að sök meiri háttar bókhalds­brot með því að láta færa í bókhaldi Baugs sölu á hlutafé félagsins í Baugi.net ehf., að nafnverði 2,5 milljónir króna r til Fjárfars fyrir 50 milljónir króna. Í ákæru var því lýst hvernig þessi sala var færð í bókhaldi Baugs og að Fjárfar hafi ekki greitt fyrir hlutaféð.

Dómurinn segir, að þessari efnislýsingu sé í engu lýst í hverju brot Jóns Ásgeirs eigi að vera fólgið. Aðeins sé lýst færslum á viðskiptum, sem gengu ekki eftir og hvernig við var brugðist með bakfærslu og loks eignfærslu á hlutabréfum sem höfðu verið seld en kaupin gengið til baka.

Dómurinn segir, að í lögum um meðferð opinberra mála komi fram að greina skuli í ákæru hvert brotið sé, sem ákært er út af, hvar og hvenær það sé talið framið, heiti þess að lögum og önnur skilgreining og loks heimfærsla þess til laga og stjórnvaldsfyrirmæla, ef því er að skipta.

„Til að ákæra geti uppfyllt þessi skilyrði laganna verður verknaðarlýsing hennar að vera þannig úr garði gerð að hvorki ákærði né dómari þurfi að vera í vafa um hvaða refsiverð háttsemi ákærða er gefin að sök. Verður að vera hægt að ráða þetta af ákærunni einni saman og skiptir engu hvaða ályktanir megi draga af rannsóknargögnum eða hvað ákærða kann að vera ljóst vegna rann­sóknar málsins. Með ákærunni á þannig að leggja fullnægjandi grundvöll að málinu svo hægt sé að fella dóm á það samkvæmt því sem í ákærunni er tilgreint. Í þessum ákærulið er ætluðu broti ákærða ekki lýst og er ákæruliðurinn því ekki í samræmi við nefnt lagaákvæði og óhjákvæmilegt að vísa honum frá dómi," segir í dómi Héraðsdóms.

Dómur í Baugsmálinu

Verjendur sakborninga í Baugsmálinu í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag.
Verjendur sakborninga í Baugsmálinu í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag. Ragnar Axelsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert