Kallar eftir gögnum um eignasölu á Keflavíkurflugvelli

Frá Alþingi.
Frá Alþingi. mbl.is/Sverrir

Atli Gíslason, þingmaður VG, hvatti til þess á Alþingi í dag, að forseti þingsins og forsætisnefnd að afla allra gagna, sem til væru um sölu eigna á Keflavíkurflugvelli, svo sem um það hvernig kaupverð var ákveðið og um greiðslukjör.

Sagðist Atli  hafa fullt af upplýsingum sem sýndu, að um undirverð hafi verið að ræða og að fólk, sem gerði tilboð í eignirnar, hafi verið sniðgengið.

Áður hafði Sturla Böðvarsson, forseti Alþingis, gert athugasemd við ummæli, sem  Atli lét falla á þinginu í gærkvöldi en þar sagðist hann líta svo á, að Ríkisendurskoðun væri að setja stein í götu sína með því að neita sér um upplýsingar um málið, þá götu sem hann væri að feta sem þingmaður til eftirlits með tekjum og gjöldum ríkisins.

Sagði Sturla að beiðnir um skýrslur frá Ríkisendurskoðun þurfi að berast forsætisnefnd sem beindi þeim síðan til Ríkisendurskoðunar.

Atli sagðist ekki hafa verið að biðja um skýrslu heldur hefði hann farið til upplýsingasviðs Alþingis og beðið um gögn um Þróunarfélag Keflavíkurflugvallar. Sagði Atli, að full ástæða væri til þessarar beiðni vegna þess að fyrir lægi, að eignir á Keflavíkurflugvelli hefðu verið seldar með óeðlilegum hætti á óeðlilegu verði.

Sagði Atli, að kallað hefði verið eftir þessum gögnum í nefndum þingsins en án árangurs. Ástæða væri til þess að ætla, að hér væri maðkur í mysunni og það eina sem hann hefði beðið um væri, að loftað verði út.

Steingrímur J. Sigfússon, þingmaður VG, sagði að grafið væri undan Alþingi ef fjármálaráðuneytið neitaði fjárlaganefnd um upplýsingar um málefni fyrirtækis, sem væri í 100% eigu íslenska ríkisins.

Árni M. Mathiesen, fjármálaráðherra, sagði að Alþingi hefði ekki verið neitað um neinar upplýsingar. Þær upplýsingar, sem um væri að ræða, væru hjá ríkisendurskoðanda, sem teldi, að þær væru viðskiptamál, sem ekki ætti að liggja frammi. Hann hefði hins vegar boðið nefndarmönnum að skoða þessi gögn með sér til að ganga úr skugga um að ekkert óeðlilegt sé á ferðinni.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert