Björgunaraðgerðir undirbúnar

Ísbjörninn að Hrauni
Ísbjörninn að Hrauni mbl.is/RAX

Danski sérfræðingurinn, Carsten Gröndal, sem er sérfræðingur í að fanga villt dýr og deyfa, lenti á þriðja tímanum á Akureyri og að sögn Hjalta J. Guðmundssonar, sviðsstjóra náttúruauðlinda hjá Umhverfisstofnun, er ísbjörninn hinn rólegasti og sefur í æðarvarpinu að Hrauni á Skaga. Gert er ráð fyrir að aðgerðir við að deyfa dýrið hefjist á milli 17 og 18 í dag.

Landhelgisgæslan mun fljúga með Gröndal að Hrauni á Skaga en ekið verður með búr undir dýrið frá Akureyri.

Segir Hjalti að sennilega sé hvítabjörninn eldra karldýr en þau eru yfirleitt róleg og sofa mikið. Allt hefur gengið að óskum hingað til og vonast Hjalti til þess að svo verði áfram. Það sé ekki síst að þakka hversu reiðubúnir allir séu til þess að aðstoða og framganga þeirra Stefáns Vagns Stefánssonar, yfirlögregluþjóns á Sauðárkróki og Þorsteins Sæmundssonar, hjá Náttúrufræðistofu norðvesturlands, sem stýra aðgerðum að vettvangi, sé til fyrirmyndar. 

Athygli er vakin á því að svæðið er og verður lokað almenningi. Þá er því sérstaklega beint til flugmanna að fljúga ekki lágflug yfir svæðið og nú er í gildi 7 mílna flugbann.

Varðskip Landhelgisgæslunnar er á leiðinni á Sauðárkrók en það mun flytja hvítabjörninn úr landi ef það tekst að fanga dýrið lifandi.

mbl.is

Bloggað um fréttina