Tjónþolum boðin aðstoð

Mikið tjón varð á innbúi á jarðskjálftasvæðinu.
Mikið tjón varð á innbúi á jarðskjálftasvæðinu. mbl.is/Frikki

Þeir sem orðið hafa fyrir tjóni vegna Suðurlandsskjálftanna í vor, sem ekki fæst bætt úr tryggingum eða telja sig ekki hafa fengið fullnægjandi úrlausn sinna mála geta nú snúið sér til þjónustumiðstöðvarinnar í Tryggvaskála á Selfossi. Þar verður tekið á móti öllum erindum og þau flokkuð og skráð.

Það er upphafið að ferli þar sem hvert tilfelli er metið og leitað lausna. Afgreiðslutími hvers erindis veltur á umfangi þess. Í tilkynningu frá þjónustumiðstöðinni segir, að ljóst sé að mörg flókin verkefni bíði úrlausnar og því megi búast við að talsverður tími líði þar til afgreiðslu allra mála verði lokið.

Ríkisstjórnin hefur ákveðið að koma með þessum hætti til móts við þá sem orðið hafa fyrir tjóni eftir því sem hægt er og verður afgreiðsla mála unnin í samvinnu við sveitarfélögin á jarðskjálftasvæðinu.

Þjónustumiðstöðin í Tryggvaskála byrjar að taka á móti erindum mánudaginn 21. júlí n.k. og verður því síðan haldið áfram mánudaga til fimmtudaga kl. 13 til 16.   Netfang þjónustumiðstöðvarinnar er olafurhar@tmd.is Þeir sem telja sig þurfa fyrirgreiðslu þá sem fjallað er um hér að framan er bent á að panta tíma í síma þjónustumiðstöðvarinnar eða með tölvupósti til Ólafs Arnar Haraldssonar, forstöðumanns, til þess að spara sér tíma við bið eftir afgreiðslu.


mbl.is