Íslendingar gengu ekki út

Sæti Ísraelsmanna er autt á ráðstefnunni í Genf.
Sæti Ísraelsmanna er autt á ráðstefnunni í Genf. Reuters

Hvorki Íslendingar né Norðmenn gengu út af Durban II ráðstefnu Sameinuðu þjóðanna um kynþáttafordóma í dag er Mahmoud Ahmadinejad Íransforseti sagði í ræðu sinni á ráðstefnunni að stjórn kynþáttahaturs hefði verið mynduð í Miðausturlöndum.

Samkvæmt upplýsingum íslenska utanríkisráðuneytisins hafa Íslendingar litið til annarra Norðurlanda í málinu og var í þessu tilfelli ákveðið að fylgja Norðmönnum, sem sátu áfram í salnum, er fulltrúar nokkurra Evrópuþjóða gengu út. Ekki hafa borist nákvæmar fréttir af því hverjur gengu út en samkvæmt fréttum AFP gengu a.m.k. fulltrúar tíu þjóða út.

Gert er ráð fyrir að fulltrúar þeirra gangi aftur í salinn er Ahmadinejad hefur lokið máli sínu.

Þykir ljóst að hann hafi með orðum sínum hafi Ahmadinejad vísað til nýrrar ríkistjórnar Ísraels.

Þrír fulltrúar Íslands sitja ráðstefnuna en Ástralar, Bandaríkjamenn, Hollendingar, Ísraelar, Ítalir, Kanadamenn, Nýsjálendingar og Þjóðverjar hættu við þátttöku í ráðstefnunni. Ástæðan var bæði þátttaka Ahmadinejads og óánægja með lokauppkast að lokaskjali ráðstefnunnar.

Þá kölluðu Ísraelar sendiherra sinn í Sviss heim í dag eftir að forseti þeirra hitti Ahmadinejad. Hann hefur m.a. afneitað helför nasista gegn gyðingum en minningardagur um helförina er í Ísrael í dag.   

mbl.is