Fréttaskýring: Breyttar kröfur í viðræðum við verktaka

Mjög vel hefur gengið við lagningu Suðurstrandarvegar í vetur og …
Mjög vel hefur gengið við lagningu Suðurstrandarvegar í vetur og er verktakinn, KNH ehf. frá Ísafirði, langt á undan áætlun. Mynd Vegagerðin

Verktakar þurftu áður að geta sýnt fram á að eigið fé væri jákvætt, en þar sem fá verktakafyrirtæki geta nú státað af slíkri stöðu hefur krafa um örugga verktryggingu verið sett í forgang. Þetta hefur aftur leitt til þess að rætt er við fleiri aðila við samningsgerð og sjaldnar en áður samið við lægstbjóðanda.

Hreinn Haraldsson vegamálastjóri segir að síðustu mánuði hafi í auknum mæli verið kallað eftir upplýsingum frá fjórum til sjö lægstbjóðendum í útboði og farið sé yfir öll þeirra gögn áður en gengið sé til samninga. „Við förum fram á verktryggingar og förum yfir verkefnastöðu og ef fyrirtæki eru með mikið í gangi treystum við þeim stundum ekki til að skila stóru, nýju verki á umsömdum tíma,“ segir vegamálastjóri.

Hreinn segir að þetta hafi leitt til þess að oftar hafi verið samið við fyrirtæki sem eigi kannski þriðja eða fjórða lægsta tilboð. Aukin varkárni einkenni alla samningsgerð. Til að tryggja samkeppni á þessum markaði hafi ekki verið stætt á öðru en að taka út kröfu um jákvætt eigið fé fyrirtækja þar sem fá fyrirtæki séu með slíka fjárhagsstöðu. „Á móti erum við harðari á að menn hafi allar sínar verktryggingar í lagi og tækjakostur og fjárhagsleg staða sé þannig að bæði við og þeirra viðskiptabanki geti treyst því að þeir klári sig af verkinu,“ segir Hreinn.

Draga til baka tilboð í Raufarhafnarveg

Hann segir að flestir verktakar hafi haldið sínu striki. Fyrirtæki hafi til þessa staðið við tímasetningar sínar og ekki hafi borist tilkynningar um að fyrirtæki þurfi að hverfa frá verki. Ljóst sé þó að erfitt sé hjá mörgum, ekki síst þeim sem séu með tæki sín til dæmis á kaupleigu í erlendri mynt.

Spurður um fréttir þess efnis að Lýsing hafi tekið hátt í 40 vinnutæki verktakafyrirtækisins Klæðningar og hvort það hefði áhrif á vinnu á Lyngdalsheiði sagðist Hreinn ekki hafa upplýsingar um slíkt. Hann sagði að þetta dæmi væri það fyrsta sem gæti haft einhver áhrif.

Hins vegar hefði Klæðning dregið tilboð sitt í Raufarhafnarveg til baka. Fyrirtækið bauð 250 milljónir króna í framkvæmdina eða 55,9% af áætlun sem hljóðaði upp á 447 milljónir króna. Ekki hefur verið gengið frá samningum um verkið, sem á að vera lokið haustið 2010.

Lág tilboð í vegaframkvæmdir endurspegla ástandið í þjóðfélaginu á síðustu mánuðum. Nefna má af nýlegum dæmum að hið lægsta nítján tilboða í Álftanesveg nam 68% af kostnaðaráætlun, en Loftorka bauð 561 milljón í verkið. Kostnaðaráætlun nam 825 milljónum króna. Þrettán fyrirtæki buðu í framkvæmdir á Norðausturvegi. Hektar bauð 738 milljónir sem eru 51,3% af 1.440 milljóna kostnaðaráætlun. Heflun bauð 341 milljón í framkvæmdir á Vestfjarðavegi í Múlasveit eða sem nemur 58,8% af 580 milljóna áætlun.

Eins og áður sagði hefur í fleiri tilvikum en áður ekki verið samið við lægstbjóðendur á síðustu mánuðum.

Annað stærsta árið

Í nóvember síðastliðnum var ákveðið að bíða með öll verkútboð í vegagerð þar til séð yrði hver yrði framvinda efnahagsmála og hversu umfangsmikil lækkun framlaga til vegamála yrði. Í lok janúar greindi Kristján Möller, samgönguráðherra, frá því að á ný væri hafinn undirbúningur og auglýsing útboða vegna verkefna á næstu misserum í samræmi við samgönguáætlun og fjárveitingar 2009. Þrátt fyrir 6 milljarða króna lækkun útgjalda í ár er reiknað með að árið verði annað mesta framkvæmdaárið í vegamálum.

Á síðasta ári runnu um 25 milljarðar til framkvæmda og í ár mun tæplega 21 milljarður fara til framkvæmda. Áætlað er að um 14 milljarðar af framlagi til nýframkvæmda í ár séu þegar bundnir í verkefnum sem komin voru af stað í fyrra. Milli 6 og 7 milljarðar verða til ráðstöfunar í ný verkefni. Aðrir stórir liðir í vegamálum eru rúmir 5 milljarðar til viðhalds, 3,7 milljarðar til vetrar- og sumarþjónustu á vegum og 1,4 milljarðar til að styrkja ferjur og sérleyfishafa í fólksflutningum og innanlandsflugi.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert