Fréttaskýring: Epli og appelsínur?

Guðmundur Rúnar Guðmundsson

Kaup dótturfélags Magma Energy á 32% hlut Orkuveitu Reykjavíkur í HS orku gengu í gegn í stjórn OR á mánudag. Fyrr í sumar hafði dótturfélag Magma keypt 11% hlut í félaginu af Geysi Green Energy og á það því 43% hlut í HS orku.

Forsagan

Forsaga málsins er sú að Samkeppniseftirlitið úrskurðaði að Orkuveitan mætti aðeins fara með 10% hlut í HS orku, en hlutur OR var þá þegar 16% og samningar lágu fyrir við Hafnarfjarðarbæ um kaup á 15% til viðbótar á genginu 7.

Þegar þetta varð ljóst reyndi OR að bakka út úr kaupunum af Hafnarfjarðarbæ, en tapaði málaferlunum fyrir héraðsdómi og var ekki aðeins gert að standa við gerða samninga heldur einnig að greiða dráttarvexti.

OR áfrýjaði til Hæstaréttar, en báðir deiluaðilar urðu sammála um að eyða ágreiningnum með því að selja hlutinn í HS orku. Samið var um að OR stæði við kaupin á hlut Hafnarfjarðarbæjar í HS orku með láni á 4,5% verðtryggðum krónuvöxtum.

Í janúar fór OR með hlutinn í HS orku í opinbert söluferli, sem miðaðist við frest samkeppnisyfirvalda fram að áramótum. Svo fór að einungis tvö erlend félög skiluðu inn bindandi tilboði, en beiðni OR um lengri tímafrest fékk dræmar undirtektir hjá Samkeppniseftirlitinu.

Svo fór að Magma keypti hlut OR í HS orku á rúma 12 milljarða á genginu 6,31 og staðgreiðir 30% af kaupverðinu, en fær 70% lánuð frá OR til sjö ára. Salan verður tekin fyrir í borgarráði á fimmtudag og í borgarstjórn 15. september.

Gagnrýnin

Gagnrýnin hefur m.a. falist í því að það sé Magma Energy Sweden, sænskt dótturfélag, sem kaupi hlutinn í HS orku, en ekki kanadíska móðurfélagið. En það er tilkomið vegna takmarkana íslenskra laga, sem heimila ekki fjárfestingar aðila utan EES í þessum geira. Þá séu einungis bréfin í HS orku lögð að veði fyrir láninu, sem beri að greiða með eingreiðslu eftir sjö ár.

Á móti kemur að 30% kaupverðsins verða staðgreidd, þannig að skuldbinding liggur þegar fyrir af hálfu Magma. Kveðið er á um það í samningnum að eigandinn megi ekki taka nein verðmæti út úr HS orku með eignasölu og jafnframt að arðgreiðslur fari inn á vörslureikning sem standi undir tryggingabréfinu. Þá verður árlega ráðist í virðisrýrnunarpróf og fari virði veðsins undir ákveðin viðmiðunarmörk í gefinn tíma, þá þarf kaupandinn að leggja fram auknar tryggingar eða greiða inn á lánið. Annars hefur OR heimild til gjaldfellingar og eignast þá selda hlutinn aftur, auk þess að halda eftir 3,5 milljarða staðgreiðslu.

Gagnrýnin hefur einnig falist í því að vextirnir á láninu til Magma, sem eru 1,5%, séu mun lægri en vextirnir sem OR greiðir til Hafnarfjarðarbæjar vegna kaupanna á hlutnum í HS orku. Þá gagnrýni verður þó að skoða í því ljósi að þessir samningar eru ótengdir með öllu; tilboð Magma hafði ekkert með kaup OR á hlutnum í HS orku að gera. Munurinn á vaxtakjörum skýrist af því að kaup Magma eru fjármögnuð í dollurum og vextir á skuldabréfum í dollurum eru hverfandi, öfugt við vexti krónubréfa. Þess má geta að OR greiðir um 1% vexti af lánum sínum í erlendri mynt.

En vextirnir eru þó ekki algildur mælikvarði á lánskjörin, því lánið sem OR veitir Magma er tengt álverði og aðeins til hækkunar. Viðmiðunarverðið hljóðar upp á 1.750 dollara á tonnið, en álverð hefur hækkað síðan í 1.950 dollara, sem leiðir til hækkunar skuldabréfsins um 6%.

Til dæmis um hvaða áhrif ólíkar breytur geta haft á samninginn, þá lækkar verðmæti bréfanna í 5,6 ef álverð stendur í stað á næstu sjö árum, en ef álverð hækkar upp í þakið í samningnum, 3.250 dollara, þá fer verðmæti bréfanna í 7,1. Önnur leið fyrir OR væri að kaupa framvirkan samning og eyða þannig áhættu tengdri álverðsþróuninni, en samkvæmt heimildum bæri þá skuldabréfið 4,3% vexti í dollurum.

Þeirri spurningu hefur verið velt upp hvers vegna OR hafi keypt hlutinn í HS á genginu 7 á sínum tíma, en verðmætið hafi lækkað síðan í 6,3. En þá ber að hafa í huga að eiginfjárhlutfall félagsins var 51% árið 2007 og skuldir 13,5 milljarðar. Nú er eiginfjárhlutfallið mun óhagstæðara eða 18% og skuldirnar hafa vaxið í 29,2 milljarða, en þær rúmlega tvöfölduðust með hruni krónunnar. Forsendurnar eru því gjörbreyttar. Á það er bent að kaupverðið á sínum tíma hafi verið 16 sinnum EBITDA félagsins, sem hafi þótt mikið þá, en gengið í kaupsamningnum núna sé um 23 sinnum EBITDA.

Eina leiðin til að ná því virði út úr rekstrinum fyrir nýjan eiganda sé að hann hafi aðgang að fjármagni til frekari uppbyggingar og til þess þurfi að verða viðsnúningur í rekstrinum, því fyrirtækið hafi verið ofurselt lánardrottnum um nokkurt skeið með of lágt eiginfjárhlutfall og virkar gjaldfellingarheimildir.

Loks er gagnrýnt að auðlindin hafi færst í meirihlutaeigu einkaaðila. En veruleikinn er annar því Reykjanesbær keypti auðlindina af HS orku og leigði hana aftur til HS orku til 65 ára, sem er hámarkstími samkvæmt lögum sem samþykkt voru á Alþingi í fyrra að frumkvæði Össurar Skarphéðinssonar iðnaðarráðherra.

Kaupverðið helst í hendur við auðlindagjaldið, þannig að ef auðlindagjaldið hefði verið hærra, þá hefði það vísast komið til hækkunar kaupverðinu til Reykjanesbæjar. Og til þess að fyrirbyggja að gengið sé of hratt á auðlindina, þá lækkar auðlindagjaldið með góðri umgengni um hana, til dæmis með niðurdælingu sem tryggir endingartímann.

Lánið fellur vel að okkar eignasafni

„ÞAÐ hefur þvælst fyrir okkur að ef dómur Hæstaréttar yrði neikvæður, þá féllu á OR tíu milljarðar vegna kaupanna af Hafnarfjarðarbæ og við hefðum aðeins nokkra daga til að efna það,“ segir Hjörleifur B. Kvaran, forstjóri OR. „Sú óvissa hefur haft neikvæð áhrif á möguleika okkar til lántöku erlendis og valdið óvissu matsfyrirtækja. En þetta samkomulag leysir það og þá er það frá!“

Hann segir eignarhlutinn í HS Orku hafa verið í söluferli í langan tíma. „Engir innlendir fjárfestar sýndu áhuga,“ segir hann. „Þegar á reyndi voru það eingöngu tveir útlendir aðilar og þeir gerðu ráð fyrir að greiða í eigin mynt. Hinn var breskur verðbréfasjóður sem vildi greiða í pundum. En okkar niðurstaða var sú að Magma hefði gert hagstæðasta tilboðið. Og þar sem við skuldum 200 milljarða í erlendum gjaldeyri, þá fellur lán í dollurum vel að okkar eignasafni og minnkar gengisáhættuna.“

– Eruð þið að innleysa gengistap?

„Ein spurningin frá borgarfulltrúum VG og Samfylkingar var sú hvert yrði verðmæti bréfsins ef gengi krónunnar styrktist um 25%, 50% eða 100%!“ svarar hann.. „En ríkisstjórn sömu flokka hefur sent okkur þau skilaboð að gera ekki ráð fyrir neinni verulegri styrkingu krónunnar á næstu árum. Ef menn hafa þá trú að gengi krónunnar geti styrkst um 100%, þá eru það góð tíðindi fyrir OR með allar þessar skuldir í erlendri mynt.

Salan á hlut OR breytir í raun engu til eða frá, því HS orka var þegar komin í meirihlutaeigu eins einkafyrirtækis. OR hefði til dæmis engu ráðið um hugsanlega sameiningu Magma og GGE. Það var Reykjanesbær sem tók þá ákvörðun að HS orka yrði ekki í samfélagslegri eigu.“

Sala Orkuveitu Reykjavíkur á eignarhlutnum í HS orku léttir undir með félaginu í fjármögnun á framtíðaruppbyggingu á Hengilssvæðinu, en tilraunaboranir lofa góðu. „Það er mikilvægt að hafa náð að losa um þennan eignarhluta og semja við Hafnarfjörð,“ segir Hjörleifur B. Kvaran, forstjóri OR.

„Nú strandar fjármögnunin fyrst og fremst á stöðu Íslands í samfélagi þjóðanna. Bankar hafa ekki verið tilbúnir að lána peninga til framkvæmda á Íslandi, hvorki til okkar né annarra orkufyrirtækja. Við eigum samt sem áður loforð um 27 milljarða lán frá Evrópubankanum frá því í september í fyrra og erum enn þeirrar trúar að bankinn muni efna það lán. Hann hefur ekki fellt það niður og bíður vísast eftir því að ró komi yfir efnahagsmál á Íslandi og fylgist grannt með aðgerðum stjórnvalda í því skyni.“

Fyrirséð er að setja þarf mikið fjármagn inn í rekstur HS orku til að gera fyrirtækinu kleift að ráðast í þá uppbyggingu sem þarf til að selja orku til álversins í Helguvík og Norðuráls. Í því skyni eru á teikniborðinu 50 til 60 milljarða framkvæmdir á Reykjanesi.

Magma hefur lýst vilja til að taka þátt í þeirri uppbyggingu, en setja má spurningarmerki við bolmagn annarra hluthafa félagsins til þess. Ef ríkið hefði leyst til sín eignarhlutinn hefði ákvörðun um þátttöku ríkisins hafnað á borði fjármálaráðherra, sem hefði getað valdið óvissu um framtíð slíkrar uppbyggingar, ekki aðeins vegna þröngrar stöðu ríkissjóðs, heldur einnig yfirlýstrar andstöðu Vinstri grænna.

Þegar tilkynnt var um sölu GGE á 11% hlut í HS orku til Magma, þá fylgdi sögunni að ráðist yrði í hlutafjáraukningu á genginu 4. Ekki hefur verið tekin endanleg ákvörðun um það á stjórnarfundi, en ef það hefði gengið eftir, þá hefði svo lágt gengi rýrt eignarhlut OR í HS orku enn frekar. Nú þegar má segja að eigið fé hafi verið fært niður úr genginu 7 í 6,31.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 2.185 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »