Dæmdir í 8 og 10 ára fangelsi

Tæki sem fundust í amfetamínverksmiðjunni í Hafnarfirði.
Tæki sem fundust í amfetamínverksmiðjunni í Hafnarfirði.

Tveir karlmenn voru í Héraðsdómi Reykjaness í dag dæmdir í tíu ára og átta ára fangelsi fyrir að hafa staðið saman að fíkniefnaframleiðslu í Hafnarfirði. Annar þeirra var jafnframt dæmdur fyrir vörslu á rúmlega 18 kg af kannabis og 692,95 g af amfetamíni. Jónas Ingi Ragnarsson fékk tíu ára dóm en Tindur Jónsson átta ára dóm.

Í dómi héraðsdóms kemur fram þeir stóðu saman að framleiðslu mikils magns fíkniefna í söluskyni. Ekki þyki ástæða til að gera greinarmun á þætti þeirra í málinu. Með því magni P-2-NP sem lögregla lagði hald á hefði mátt framleiða rúmlega 14 kg af hreinu amfetamíni. Með því að drýgja efnið hefði samkvæmt útreikningum Europol mátt fá úr því allt að 353 kg af amfetamíni. Brot þeirra er stórfellt og verður að teljast enn alvarlegra en innflutningur eða varsla fíkniefna. Þá var ásetningur þeirra styrkur og einbeittur.Tvímenningarnir eiga sér engar málsbætur, að því er segir í dómi héraðsdóms.

Ástæða þess að Jónas Ingi fær þyngri dóm en Tindur er sú að hann var einnig dæmdur fyrir vörslu á miklu magni af fíkniefnum 

Til frádráttar fullnustu refsingar þeirra kemur gæsluvarðhald sem þeir sættu frá 16. október 2008 til 26. nóvember sama ár.

Þeim ber að greiða allan sakarkostnað málsins. Samkvæmt yfirliti um sakarkostnað er útlagður kostnaður við rannsókn málsins 2.530.851 króna, sem þeim ber að greiða óskipt.

Auk þess greiði Jónas Ingi þóknun verjanda á rannsóknarstigi, Vilhjálms H. Vilhjálmssonar héraðsdómslögmanns 139.440 krónur. Jafnframt greiði hann þóknun skipaðs verjanda síns, Sveins Andra Sveinssonar hæstaréttarlögmanns 1.627.962 krónur.

Tindi er gert að greiða þóknun skipaðs verjanda síns, Brynjars Níelssonar hæstaréttarlögmanns, 2.046.282 krónur.

Aðdragandi málsins er sá að hinn 30. apríl 2008 bárust lögreglu upplýsingar um innflutning fyrirtækis í eigu ákærða Jónasar Inga Ragnarssonar, Hjúps ehf., á varningi sem notaður er til ræktunar á kannabisplöntum. Í júlí á sama ári bárust lögreglu jafnframt upplýsingar frá aðila um að ákærði Jónas Ingi hefði til sölu mikið magn amfetamíns. Við rannsókn lögreglu kom í ljós að ákærði Tindur Jónsson hefði aðstoðað Jónas Inga við að flytja varning.

Í rannsóknarskýrslu lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu kemur fram að hinn 24. júlí 2008 hófust hleranir á símum ákærðu. Einnig var fylgst með tvímenningunum fara oft að Móhellu 4e í Hafnarfirði. Jafnframt fóru þeir oft í fyrirtæki sem selur tæki og  rekstrarvörur fyrir rannsóknarstofur. Enn fremur kom í ljós að sendingar til Hjúps ehf. innhéldu ýmsan glervarning til notkunar á rannsóknarstofum. Í byrjun ágúst fékk lögreglan svo upplýsingar um að Jónas Ingi hefði, fyrir hönd Hjúps ehf., pantað 1.000 kg af mannitol, en síðan breytt pöntuninni í mjólkursykur (laktósa). Upplýsingar sem lögregla aflaði sér voru bornar undir sérfræðinga hjá Europol og bandarísku alríkis­lögreglunni í Las Vegas.

Í kjölfariðfékk lögreglan dómsúrskurð sem heimilaði henni að setja upp búnað til að hlusta og hlera samtöl og önnur hljóð í Móhelluþ. Þá voru teknar myndir í húsnæðinu og vettvangur kannaður. Við símhlustun 1. október 2008 kom í ljós að þeir fengu afhent iðnaðar­húsnæði annars staðar í Hafnarfirði og sást til þeirra flytja hluti frá Móhellu 4e í það húsnæði. Lögregla fékk í framhaldi af því heimild til að hlera samtöl og önnur hljóð í nýja húsnæðinu. Aðfaranótt 16. október 2008 fór lögregla inn í húsnæðið til að laga búnað sem hún hafði komið fyrir og var þá ákveðið að stöðva framleiðslu sem þar var í gangi. Jónas Ingi var handtekinn á vettvangi um morguninn og  Tindur var handtekinn skömmu síðar skammt frá heimili sínu.  

Í skýrslu Europol frá því í desember 2008, kemur fram að tveir starfsmenn lyfjadeildar Europol aðstoðuðu lögreglu við rannsókn málsins. Í niðurstöðu­kafla skýrslunnar segir að smíði og uppsetning búnaðar á vettvangi hafi verið fagmannleg og með svipuðum hætti og á ýmsum ólöglegum framleiðslustöðum nýmyndaðra lyfja sem hafi verið gerðir upptækir innan Evrópusambandsins. Búnaðurinn hafi verið mjög sérhæfður og af mjög miklum gæðum. Þá hafi búnaðurinn og efnin bent til aðkomu aðila með efnafræðilega þekkingu.

Jónas Ingi var með héraðsdómi 9. nóvember 2004, sem staðfestur var í Hæstarétti 28. apríl 2005, dæmdur í fangelsi í tvö ár og sex mánuði fyrir brot á lögum um ávana- og fíkniefni, brot gegn lífi og líkama og fyrir ósæmilega meðferð á líki. Hann fékk reynslulausn 8. febrúar 2007 á eftirstöðvum refsingar, 300 dagar. Með úrskurði 26. nóvember 2008 var ákærða gert að afplána eftirstöðvar þeirrar refsingar og hefur því lokið afplánun á eftirstöðvum refsingar.

Tindur var hinn 17. maí 2004 dæmdur í þriggja mánaða fangelsi, skilorðsbundið í tvö ár, fyrir eignaspjöll og líkamsárásir. Með héraðsdómi 12. apríl 2006 var hann dæmdur í sex ára fangelsi fyrir tilraun til manndráps, fjórar líkamsárásir, brot á vopnalögum og brot á lögum um ávana- og fíkniefni. Dómurinn frá 17. maí 2004 var dæmdur með.

Refsing Tinds var staðfest með dómi Hæstaréttar 7. desember 2006. Honum var veitt reynslulausn hinn 15. september 2008 á eftirstöðvum refsingar, 1080 dagar. Með úrskurði 26. nóvember 2008 var honum gert að afplána þær eftirstöðvar refsingar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert