Vilja Icesave aftur í nefnd

Alþingi.
Alþingi. mbl.is/Heiðar

Þingmenn stjórnarandstöðunnar fóru fram á það á Alþingi í dag að farið yrði með Icesave-málið aftur inn í nefndir þingsins til frekari umfjöllunar. Sögðu þeir svo mikilvægar upplýsingar hafa komið fram á undanförnum dögum að ekki væri annað hægt. Að sögn forseta Alþingis verður málið skoðað. Á meðan ekki hefur verið tekin ákvörðun heldur önnur umræða um Icesave áfram.

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, varaformaður Sjálfstæðisflokks, hvatti til þess að gert yrði hlé á umræðunni á meðan álitamál, lík þeim sem fram koma í grein Sigurðar Líndal lagaprófessors og áliti Daniels Gross, verði rædd í fjárlaganefnd og efnahags- og skattanefnd. 

Fleiri þingmenn komu upp og tóku undir með Þorgerði. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokks, sagði stöðuna augljósa. Eina vitið væri að taka málið aftur inn í nefnd. Jafnframt sagði hann, að nýjar upplýsingar sem fram eru komnar minni á það, að ríkisstjórnin hafi ekki gert neitt til að leita eftir utanaðkomandi ráðgjöf. Ríkisstjórnin vilji ekki heyra staðreyndir málsins, og það þrátt fyrir að samningsstaða Íslands sé býsna sterk.

mbl.is

Bloggað um fréttina