Dýrt að hafna Icesave

Þórólfur Matthíasson
Þórólfur Matthíasson

Það verður Íslendingum dýrt hafni þeir Icesave-samningnum, að því er Þórólfur Matthíasson prófessor segir í grein í norska blaðinu Aftenposten í dag. Þórólfur segir að stjórnarandstöðuflokkar á Alþingi hafi ásamt þremur til fjórum þingmönnum VG og InDefence dregið upp hryllingsmynd með áherslu á heildarskuldbindingarnar.

Einnig sé fullyrt að kröfur Englands og Hollands njóti ekki lagastuðnings. „Svindlarinn Madoff sannfærði fólk um að hann gæti ávaxtað fjármagn hraðar en allir aðrir. IceSave-andstæðingunum á Íslandi tókst að sannfæra stóran hluta þjóðarinnar, ásamt Evu Joly, um að IceSave-skuld Íslands gæti horfið á einni nóttu með einföldum lögfræðilegum eða viðskiptatæknilegum snilldartökum. Ekkert af þessu á sér stoð í raunveruleikanum,“ skrifar Þórólfur meðal annars (Þýðing mbl.is úr norsku).

Þórólfur skrifar m.a. að lítið hafi verið fjallað um efnahagslegar afleiðingar þess að neita að samþykkja Icesave samninginn. Hann dregur upp „væga“ mynd af því sem hann telur geta gerst. Raunvextir á lánum ríkisins muni líklega hækka um 2-3 prósentustig. Vaxtagreiðslur til útlanda muni aukast í allt að 6-10 % af BNP (vergri þjóðarframleiðslu) næstu 15 árin.

Þá telur Þórólfur að Noregur kunni að fá mikilvægt hlutverk við að hafa milligöngu milli Hollands, Englands og Íslands í málinu. Hann skrifar og að mikilvægasta forsendan fyrir skynsamlegri lausn sé að útskýra það fyrir íslensku þjóðinni hvaða afleiðingar þess að neita samningsniðurstöðunni þýði. Í lokin varpar Þórólfur fram spurningu: „Ef til vill tekst norskum stjórnvöldum það þeim íslensku tókst ekki?“

Grein Þórólfs Matthíassonar prófessors í Aftenposten

mbl.is