Birgitta: Mjög bjartsýn

Bjarni Benediktsson, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson og Birgitta Jónsdóttir
Bjarni Benediktsson, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson og Birgitta Jónsdóttir mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Birgitta Jónsdóttir, formaður þingflokks Hreyfingarinnar, er mjög bjartsýn á framhaldið í viðræðum Íslendinga við Breta og Hollendinga um Icesave. Hún segir að boltinn sé nú hjá Hollendingum og Bretum og á von á því að framhaldið skýrist á næstu tveimur sólarhringum.

Fulltrúar stjórnmálaflokkanna áttu fund með íslensku samninganefndinni í morgun en samninganefndin kom að utan seint í gærkvöldi.

Fyrir íslensku samninganefndinni fer bandaríski lögfræðingurinn Lee Buchheit. Auk hans skipa nefndina Guðmundur Árnason og Einar Gunnarsson, ráðuneytisstjórar fjármálaráðuneytis og utanríkisráðuneytis, ásamt Jóhannesi Karli Sveinssyni lögmanni og Lárusi Blöndal lögmanni, sem tilnefndur er af stjórnarandstöðuflokkunum sameiginlega.

Þeim til ráðgjafar eru Don Johnston, fyrrverandi framkvæmdastjóri OECD, auk sérfræðinga ráðgjafarfyrirtækisins Hawkpoint og lögfræðistofunnar Ashurst.

Að sögn Birgittu telur hún að enn sé glufa í að ná samkomulagi við Breta og Hollendinga en ekki eigi að þrýsta of mikið á þá heldur láta þá eiga næstu skref. Hún segist eiga von á því að það skýrist um helgina hvert framhaldið verður. Gott hljóð hafi verið í samninganefndinni í morgun og þó svo að það fari þannig að Bretar og Hollendingar hafni tillögu Íslendinga þá sé ákveðnum áfanga náð hvað varðar stöðu Íslendinga í málinu. 

Segir hún að sú leið sem Íslendingar bjóða í málinu þýði að þjóðin þurfi ekki að taka áhættu og um leið ekki heldur Bretar og Hollendingar. Segir hún það mjög skrýtið að það hafi aldrei áður verið sett inn í samningana að Hollendingar og Breti taki eignir Landsbankans í stað Icesave-skuldbindingarinnar. Birgitta segist telja það eðlilegast og er sannfærð um að það skipti nánast engu hvað komi út úr viðræðum nú - íslenska þjóðin geti ekki verið í verri stöðu heldur en hún var í áður vegna Icesave.

Vill ekki fresta þjóðaratkvæðagreiðslunni

Að sögn Birgittu var rætt um fyrirhugaða þjóðaratkvæðagreiðslu á fundinum í morgun og segist hún ekki telja það hyggilegt að hringla með dagsetninguna. Hún segir það líka mikilvæg skilaboð til almennings í Bretlandi og Hollandi, sem stendur með íslenskum almenningi, að sjá niðurstöðu þjóðaratkvæðagreiðslunnar.

Hún segir að það hafi alls ekki komið nægjanlega fram opinberlega hvað almenningur er andsnúin því að hið opinbera sé að greiða fyrir skuldir einkageirans.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert