Stund sannleikans eftir geðveika rússíbanahelgi

Össur Skarphéðinsson, iðnaðarráðherra, yfirgefur Ráðherrabústaðinn eftir langa fundarsetu helgina 4.-5. …
Össur Skarphéðinsson, iðnaðarráðherra, yfirgefur Ráðherrabústaðinn eftir langa fundarsetu helgina 4.-5. október 2008. mbl.is/Brynjar Gauti

Fram kemur í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis, að íslenskir ráðamenn gerðu sér grein fyrir því á fundi með fulltrúum fjárfestingarbankans J.P. Morgun aðfaranótt 6. október 2008, að grípa þyrfti til neyðarlaga og að bankarnir myndu væntanlega hrynja.

Björgvin G. Sigurðsson, þáverandi viðskiptaráðherra, sagði við rannsóknarnefndina, að  þetta hefði verið stund sannleikans eftir  geðveika rússíbanahelgi, „sem var kannski meira og minna byggð á óskhyggju, örugglega eftir á.“

Þrír starfsmenn J.P. Morgan höfðu komið til landsins upp úr hádegi sunnudaginn 5. október 2008 samkvæmt ósk Seðlabanka Íslands og voru að störfum þar um kvöldið. Þessir starfsmenn J.P. Morgan höfðu áður veitt Seðlabankanum ráðgjöf og þekktu því til aðstæðna á íslenskum fjármálamarkaði.

Jón Þ. Sigurgeirsson, sérfræðingur á skrifstofu bankastjórnar Seðlabankans, lýsti því við skýrslutöku að þegar leið á sunnudagskvöldið hefðu starfsmenn Seðlabankans talið að það kynni að vera gagnlegt fyrir fulltrúa ríkisstjórnarinnar að hitta þessa starfsmenn J.P. Morgan og heyra þeirra sýn á stöðu mála.

Eftir að hafa rætt við bankastjóra Seðlabankans, sagðist Jón hafa náð tali af Baldri Guðlaugssyni, ráðuneytisstjóra, og niðurstaðan hefði orðið sú að starfsmenn J.P. Morgan kæmu niður í Ráðherrabústað til fundar við ráðherra. Starfsmenn J.P. Morgan sem fóru til fundarins voru Michael Ridley, Johan Bergendahl og Gary Weiss. Sá fyrstnefndi hafði orð fyrir þeim á fundinum og að sögn Ridley hófst fundurinn ekki fyrr en undir kl. 2 um nóttina.

Auk Geirs H. Haarde voru á fundinum Árni M. Mathiesen, Björgvin G. Sigurðsson, viðskiptaráðherra, Össur Skarphéðinsson, iðnaðarráðherra, auk ráðuneytisstjóranna Bolla Þórs Bollasonar og Baldurs Guðlaugssonar. Við skýrslutöku lýsti Geir H. Haarde því að starfsmenn J.P. Morgan hefðu verið hérlendis á vegum Seðlabankans og upp hefði komið sú hugmynd að það gæti verið „heppilegt og jafnvel nauðsynlegt“ fyrir ráðherrana að hitta þessa menn.

Geir sagði að sig minnti að hugmyndin hefði komið frá Davíð Oddssyni. Geir sagði einnig: „Nú það er fleira sem gerist þessa helgi vegna þess að hann,  formaður bankastjórnarinnar, talar við kollega sína í Bretlandi, þið hafið eflaust útskriftina að því samtali. Hann taldi að þar hefðu fallið mjög mikilvæg ummæli sem mætti túlka þannig að Bank of England og Bretarnir mundu hafa skilning á því sem hér þyrfti að gera, þ.e.a.s. þetta „ring fencing“ dæmi, skipta upp í gamla og nýja, það væri skilningur á því að við þessar aðstæður væri ekki hægt að hugsa um annað en íslenska hagsmuni.“

Íslensku bankarnir gætu ekki lifað af

Um fundinn með J.P. Morgan sagði Geir við rannsóknarnefndina: „[...] það var aðallega einn maður sem var í forsvari fyrir þá, þeir voru þarna þrír, þeir voru orðnir mjög þreyttir þegar þetta var reyndar, eins og fleiri fundarmenn en þetta var allt mjög skýrt engu að síður sem frá þeim kom og þeir sögðu svona í stuttu máli það að tilraunin með að gera Ísland að svona mikilvægu – sem íslensku bankarnir hefðu gert með því að stækka svona hratt – hefði mistekist og gæti ekki lifað af við þær aðstæður sem skapast höfðu á alþjóðamarkaðinum og nú væri ekkert að gera annað en að grípa í taumana og það væri best að gera það með þeim hætti sem menn voru að tala um.“

Geir sagði að fulltrúar J.P. Morgan hefðu talið að þetta væri „búið spil“. Geir sagði síðan: „Ég er ekki viss um að það hafi verið sérstaklega nefnt en öllum sem sátu þennan fund var ljós alvara málsins og hvað þeir voru í raun og veru að segja alvarlega hluti og þegar þetta var varð mér ljóst að við þyrftum að gera ráðstafanir til að fara í sjónvarpið þarna daginn eftir o.s.frv.“

Jón Steinsson, hagfræðingur, lýsti því við skýrslutöku að hann hefði verið í Ráðherrabústaðnum þetta kvöld ásamt Friðriki Má Baldurssyni, hagfræðingi,og Jóni Þór Sturlusyni, aðstoðarmanni viðskiptaráðherra. Sturla Pálsson, framkvæmdastjóri alþjóða- og markaðssviðs Seðlabankans, hefði komið íRáðherrabústaðinn með fulltrúum J.P. Morgan.

Geir andvígur fjölmenni á fundi

Síðan sagði Jón: „Bolli var búinn að tjá okkur að það væri gott að við værum á þessum fundi, bara svona sem augu og eyru sko. En Geir virðist vera gríðarlega mikið á móti því að vera með mikið af fólki á svona fundum og segir okkur að fara heim rétt fyrir fundinn. Síðan er hringt í mig rétt eftir fundinn, kl. hálf þrjú eða eitthvað, ég er sofandi, og það er … hvort það er Tryggvi sem segir mér að það hafi verið stórkostleg mistök að við höfum ekki verið á þessum fundi, að þarna hafi sannleikurinn komið fram og það sé augljóst að við ættum að keyra á neyðarplanið og ég eigi bara að vakna snemma og byrja að framkvæma þetta neyðarplan.

Við skýrslutöku lýsti Árni M. Mathiesen fundinum með J.P. Morgan með eftirfarandi orðum:

„[...] og þá hittum við þessa menn frá J.P. Morgan og það var eiginlega „krúsíalt“, því þá er eiginlega tekin ákvörðun um það að fara í neyðarlögin [...].“ Árni sagði einnig: „[...] þeir eiginlega sögðu bara að  það væri ekki um neitt annað að ræða heldur en að undirbúa okkur undir það að við þyrftum að fara inn í bankana og skipta þeim upp og beita þessari Washington Mutual aðferð, þetta væri bara viðurkennd aðferð í svona stöðu og lýstu því.“

Við skýrslutökuna spurði rannsóknarnefnd Alþingis Árna því næst hvort svokölluð Washington Mutual aðferð væri ekki sú aðferð að skipta banka í „góðan“ banka og „slæman“ banka. Árni svaraði: „Jú, það var raunverulega það sem var gert.“

Undarleg stund

Björgvin G. Sigurðsson lýsti því við skýrslutöku að þrír fulltrúar J.P. Morgan hefðu sótt fundinn með ráðherrum þetta kvöld. Sá sem orð hefði haft fyrir fulltrúum J.P. Morgan hafi verið breskur. Um þann mann sagði Björgvin:

„Hann var hérna lengi, svo var hann fenginn til að vera hérna áfram, hann var hérna heillengi, það var mjög greinilega vel reyndur og sjóaður maður. Þannig að einhvern veginn, þetta var mjög undarleg stund, allt í einu varð okkur þetta morgunljóst, maðurinn bara teiknaði þetta upp á töflu. Bara allt í einu, þetta var svona stund sannleikans eftir þessa geðveiku rússíbanahelgi, sem var kannski meira og minna byggð á óskhyggju, örugglega eftir á.“

Svakalega „næs" menn létu okkur fá það beint milli augnanna

Össur Skarphéðinsson lýsti fundinum við skýrslutöku með eftirfarandi orðum: „Þar eru þrír prúðbúnir og vel mæltir yfirstéttar Bretar frá J.P. Morgan sem hafði verið ráðinn sem sérstakur ráðgjafi Seðlabankans. Þetta voru svakalega „næs“ menn og gaman að tala við og þeir alveg létu okkur fá það svoleiðis á milli augnanna. [...] Þeir bara sögðu það svona „ganske pent“ að þetta myndi allt saman falla, allir bankarnir myndu falla og það hefði kannski verið mögulegt fyrir okkur, töldu þeir, að verja Kaupþing. [...] Þeir voru með svona svipaða versjón, og kannski var hún þaðan komin, og Davíð Oddsson var með, þ.e.a.s. að girða af landið. Ég gat ekki skilið það öðruvísi.“

Össur sagði einnig: „Þeir voru alla vega ekki með mikið af pappírum. En ég held að þeir hafi verið búnir að vera þarna í einhverja daga kannski, kannski lengur. Og þeir höfðu, ég hef ekki hugmynd um hvaðan þeir höfðu sínar, þeir virtust tala, þeir þekktu fjármálakreppur og þeir sögðu: Þetta er bara svona, ykkar bankakerfi er þannig að það er varla hægt að bjarga því. Og ef það er hægt að bjarga einhverju þá er það Kaupþ..., þá er það KB. Þeir töluðu um að þeir væru snjallir.“

Í tölvubréfi sem Össur Skarphéðinsson sendi kl. 3:48 aðfaranótt mánudagsins 6. október 2008 segir Össur frá fundi ráðherra með fulltrúum J.P. Morgan. Össur segir að fulltrúar fyrirtækisins hafi ráðlagt „að þingið samþykkti á morgun, helst í nótt“ sérstakar heimildir fyrir stjórnvöld til að bregðast við aðsteðjandi vanda. Auk þess hafi þeir lagt til að samningi við Glitni yrði rift.

Daginn eftir fluttir Geir H. Haarde sjónvarpsávarp til þjóðarinnar og um kvöldið samþykkti Alþingi neyðarlög sem gerðu stjórnvöldum kleift að yfirtaka banka og stofna nýja.

 
Björgvin G. Sigurðsson ræðir við fjölmiðla utan við Ráðherrabústaðinn í …
Björgvin G. Sigurðsson ræðir við fjölmiðla utan við Ráðherrabústaðinn í byrjun október 2008.
Geir Haarde ræðir við fréttamenn í ráðherrabústaðnum.
Geir Haarde ræðir við fréttamenn í ráðherrabústaðnum.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert