Ekki tilefni til áminningar

Álfheiður Ingadóttir heilbrigðisráðherra.
Álfheiður Ingadóttir heilbrigðisráðherra. mbl.is/Sigurður Bogi

Álfheiður Ingadóttir, heilbrigðisráðherra, afhenti forstjóra Sjúkratrygginga bréf í gær þar sem fram kemur að ekki sé tilefni til að áminna hann fyrir að leita til ríkisendurskoðanda án þess að ráðfæra sig við ráðherra. Þetta kom fram á Alþingi í dag.

Guðlaugur Þór Þórðarson, þingmaður Sjálfstæðisflokks, spurði Álfheiði út í malefni Steingríms Ara Arasonar, forstjóra Sjúkratrygginga. Álfheiður sagði málinu lokið og eftir fund í ráðuneytinu á mánudag hafi náðst samkomulag um reglugerð um þátttöku sjúkratrygginga í nauðsynlegum tannlækninga- og tannréttingakostnaði vegna alvarlegra fæðingargalla, sjúkdóma eða slysa. Þar með hafi verið hafin afgreiðsla á umsóknum þess fólks sem býr við alvarlega galla í munnholi, um 70-80 manna hópur. Það hafi verið gert í gær.

Álfheiður sagði að vegna þess að aftur hefði náðst trúnaður milli hennar og Steingríms Ara sé ekki tilefni til að áminna hann.

mbl.is
Loka