„Þetta voru magnaðar eldingar“

Gríðarlegt öskufall er undir Eyjafjöllum.
Gríðarlegt öskufall er undir Eyjafjöllum. Golli / Kjartan Þorbjörnsson

„Þetta voru magnaðar eldingar“. Margir Eyjamenn lögðu leið sína austur á eyjuna til að fylgjast með þessu,“ sagði Bertha Johansen í Vestmannaeyjum, en þar er núna talsvert öskufall.

Samkvæmt upplýsingum frá samhæfingarmiðstöð mældust 22 eldingar frá miðnætti til 04:40 í nótt. Bertha sagði að það hefði verið ótrúlegt að horfa á þetta í gærkvöldi. Þetta hefði verið mikið sjónarspil. Mjög gott útsýni var til Eyjafjallajökuls í gærkvöldi. Núna hefur staðan breyst því aska er farin að falla í Eyjum. Gosmökkurinn liggur í suður og sjá Eyjamenn gráan mökk til vesturs, en austan við Heimaklett sér í bláan himininn.

Bertha sagði ösku smjúga inn um glugga þó að þeir væru lokaðir. Hún sagði að askan væri mjög fín. Nokkuð hvasst er í Eyjum og askan fýkur til. Rykgrímur eru komnar til Eyja og mælt er með því að fólk noti þær ef fólk þarf að vera á ferðinni úti við.

mbl.is

Bloggað um fréttina