Gífurleg flugumferð við Ísland

Alþjóðleg flugumferð um íslenska loftrýmið hefur verið gríðarlega mikil í dag. Kalla þurfti út alla tiltæka flugumferðarstjóra til að anna álaginu. Á venjulegum degi eru átta til tíu flugumferðarstjórar á vaktinni, en í dag voru þeir 22 þegar mest var.

Á degi þegar umferð telst vera mjög mikil fara um 500 þotur um íslenskt loftrými á einum degi, en líkur eru á að það sé talsvert meira í dag. Það kemur þó ekki í ljós fyrr en á morgun. Svo gæti farið að met hafi verið slegið. Hjördís Guðmundsdóttir, upplýsingafulltrúi Isavia (Flugstoða ohf.) segir jafnvel hefði verið þörf fyrir enn fleiri flugumferðarstjóra í dag.

Gríðarleg ásókn var í að fljúga í gegnum íslenska svæðið norðanvert, enda var öskuskýið í flughæð farþegaþotanna niður með vestanverðri Evrópu í dag. Það er ólíkt því sem verið hefur síðustu daga, þegar það hefur ekki náð nema um 20.000 feta hæð.

Nokkurra klukkustunda seinkun hefur orðið á flugi víðsvegar í Evrópu í dag vegna öskuskýsins. Að sögn Hjördísar koma svona álagstoppar venjulega aðeins hluta úr degi í einu, en nú ber svo við að gærdagurinn, dagurinn í dag og morgundagurinn stefna allir í að verða svona miklir álagsdagar.

„Ekki áður upplifað annað eins“ 

Í tilkynningu frá Isavia er haft eftir Ásgeiri Pálssyni, framkvæmdarstjóra flugumferðarsviðs. sem hóf störf árið 1975 sem flugumferðarstjóri, að hann hafi ekki upplifað álíka stöðu í flugmálum allan þann tíma sem hann hefur starfað við þau.

„Það hafa komið upp atburðir sem hafa haft töluverð áhrif eins og t.d. 11.september 2001 þegar loftrými Bandaríkjanna var lokað. Þá þurfti að snúa við eða breyta flugleiðum flugvéla sem voru á leið til Bandaríkjanna og koma þeim á nýja áfangastaði. En sú atburðarrás stóð í nokkrar klukkustundir ólíkt þessu ástandi sem núna er, þegar við sjáum fram á að umferðin um íslenska flugstjórnarsvæðið mun halda áfram að vera mikil í nótt og á morgun," segir Ásgeir.

Flogið til og frá Akureyri á morgun

Samkvæmt nýjustu upplýsingum frá Isavia og Icelandair er stefnt að öllu flugi í gegnum Akureyri á morgun og helsta tengistöð Icelandair verður Glasgow eins og það var í dag.

Að sögn Hjördísar gætu helst komið upp vandkvæði með að rúma allar þær flugvélar á Akureyri sem þangað fljúga. Í því tilfelli gæti þurft að flytja mannlausar vélar til Egilsstaða, einfaldlega til að geyma þær þar. Hins vegar er nokkuð öruggt að hægt verður að fljúga til og frá Akureyri á morgun.

Að sögn Guðjóns Arngrímssonar, upplýsingafulltrúa Icelandair, verður fundað aftur um stöðuna í fyrramálið. Sjá einnig aðrar fréttir frá flugfélögunum, Iceland Express og Icelandair, sem birst hafa í dag.

Skjámynd af flugumferðinni um íslenska svæðið kl. 16 í dag. …
Skjámynd af flugumferðinni um íslenska svæðið kl. 16 í dag. Fyrr í dag voru 50 fleiri vélar á svæðinu.
Svona er útlitið með öskuskýið kl 6 í fyrramálið, samkv. …
Svona er útlitið með öskuskýið kl 6 í fyrramálið, samkv. spá Metoffice í Bretlandi.
mbl.is

Bloggað um fréttina