Leitað á 16 stöðum

Alls fóru fram sextán húsleitir vegna rannsóknar á ýmsum málum tengdum Glitni á vegum embættis sérstaks saksóknara í dag.  Húsleit var gerð á 10 stöðum samtímis í morgun að undangengnum úrskurðum Héraðsdóms Reykjavíkur. Yfirheyrslur í málunum hófust á sama tíma og standa enn.

Í tengslum við rannsóknir embættis sérstaks saksóknara á lánveitingum Glitnis og viðskiptum með hlutabréf fóru fram húsleitir á ýmsum stöðum í dag á höfuðborgarsvæðinu og á Akureyri, samkvæmt tilkynningu frá embætti sérstaks saksóknara.

Eftirfarandi mál eru til rannsóknar:

Lánveitingar til félagsins Stím hf sem tengdust viðskiptum með hlutabréf í Glitni og FL Group.

Lánveitingar til félagsins FS-38 ehf til kaupa á Aurum Holding Ltd. af Fons hf.

Lánveitingar til Stoða hf (síðar Landic Properties), Baugs hf og 101 Capital ehf í tengslum við kaup á danska fasteignafélaginu Keops A/S.

Kaup fagfjárfestasjóðs GLB FX, sem var í vörslu Glitnis, á skuldabréfi af Saga Capital en bréfið var útgefið af Stím ehf. 

Kaup Glitnis á hlutabréfum í Tryggingamiðstöðinni.

„Til rannsóknar er grunur um meint brot á auðgunarbrotakafla hegningarlaga í tengslum við ráðstafanir á fjármunum bankans, brot á lögum um verðbréfaviðskipti, lögum um fjármálafyrirtæki, lögum um ársreikninga og lögum um bókhald. Um er að tefla verulega fjárhagslega hagsmuni og rannsóknin tengist fjölda manns og fjölmörgum tilvikum.

Málunum var vísað til embættis sérstaks saksóknara annarsvegar með kærum frá Fjármálaeftirlitinu og hinsvegar með tilkynningu frá skilanefnd Glitnis á þessu ári en málin hafa verið til meðferðar síðan," segir í tilkynningu.

Alls tóku um 70 manns þátt í aðgerðunum. Auk starfsmanna embættisins tóku þátt lögreglumenn frá lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu, sérsveit og efnahagsbrotadeild ríkislögreglustjórans, lögreglustjóranum á Akureyri, lögreglustjóranum á Hvolsvelli auk starfsmanna frá Fjármálaeftirlitinu. 

Jakob Valgeir Flosason, útgerðarmaður á Bolungarvík, var stjórnarformaður Stím. Hann sagði eftirfarandi í samtali við Morgunblaðið í desember 2008: „Starfsmenn Glitnis kynntu fyrir okkur þennan fjárfestingarkost. Ég lagði peninga inn í Stím í þeirri von að hagnast á hlutabréfum í FL Group og Glitni, sem höfðu lækkað mikið. Þessum peningum hef ég tapað,“ segir Jakob Valgeir Flosason, útgerðarmaður í Bolungarvík og stjórnarformaður Stíms ehf.

Samkvæmt ársreikningi félags að nafni FS38 ehf., lánaði það félag tengdum aðila, FS37 sem síðar varð Stím, 2,5 milljarða íslenskra króna árið 2007 með einum gjalddaga á árinu 2008. Í ársreikningnum, sem stendur orðrétt að „félagið [FS38] hefur lánað FS37 ehf. sem er í eigu Fons hf. 2.500 milljónir króna með einum gjalddaga á árinu 2008. Lánið er víkjandi fyrir öðrum lánum FS37 ehf. Miðað við eignastöðu FS37 ehf. er verulegur vafi um innheimtanleika kröfunnar.“


mbl.is

Bloggað um fréttina