Hagnaður af rekstri Hraðbrautar

Menntaskólinn Hraðbraut
Menntaskólinn Hraðbraut mbl.is/Ómar Óskarsson

Prýðilegur hagnaður verður af rekstri Menntaskólans Hraðbrautar í ár, þrátt fyrir að framlög til rekstursins frá ríkissjóði séu mun lægri en raunfjöldi nemendaígilda segir til um. Þetta segir Ólafur Haukur Johnson, skólastjóri Hraðbrautar. Hann segir rangt sem komið hefur fram, að ekki sé rekstrargrundvöllur fyrir skólanum.

Ólafur Haukur birti í kvöld varnarræðu sína á myndbandavefnum Youtube auk heimasíðu Hraðbrautar. Hann segir heiftarlega pólitíska atlögu gerða að skólanum og sér persónulega og skólinn verði lagður niður innan tíðar takist þeim upp sem standi að atlögunni.

Í ræðu sinni fer Ólafur Haukur um víðan völl, kemur m.a. inn á umframgreiðslur mennta- og menningamálaráðuneytisins til skólans, rekstrargrundvöll hans og arðgreiðslur.

Hvað varðar rekstargrundvöllinn þá segir Ólafur að fjárhagur skólans sé traustur og það þrátt fyrir hvað sagt er um þau mál. Skólinn hafi aldrei tekið krónu að láni og samkvæmt 10 mánaða uppgjöri sem liggur fyrir sé skólinn rekinn með prýðilegum hagnaði í ár, þrátt fyrir að miklu fleiri nemendur séu í skólanum en hann fái greitt fyrir.

Þá bendir Ólafur á, að eina árið sem tap hafi verið á rekstri skólans hafi verið á síðasta ári. Þá hafi skólinn greitt rúmar þrjátíu milljónir króna í ríkissjóð til að greiða upp skuld skólans vegna umframgreiðslna fyrri ára. Það ár hafi því ekki verið einkennandi fyrir reksturinn. Ef framlög ríkissjóðs til skólans verði nokkurn veginn í samræmi við nemendaígildi hvers árs, verði hagnaður af rekstri Hraðbrautar.

Ólafur Haukur Johnson
Ólafur Haukur Johnson mbl.is/Eggert Jóhannesson
mbl.is