Allt er orðið grænt og gott

Ólafur Eggertsson og Guðný, bændur á Þorvaldseyri.
Ólafur Eggertsson og Guðný, bændur á Þorvaldseyri. Golli / Kjartan Þorbjörnsson

„Ég er búinn að athuga bæði Holtsá og Svaðdælisá og það er allt í góðu lagi þar,“ segir Ólafur Eggertsson, bóndi á Þorvaldseyri undir Eyjafjöllum en mikilli rigningu var spáð á svæðinu í nótt. „Það virðist hafa rignt hressilega í morgun í tvo, þrjá tíma en nú er hætt að rigna og ekki að sjá að það hafi orðið aurflóð neinstaðar,“ segir hann.

Ólafur segir að ekki virðist sem mikill sand- né öskuburður sé í ánum og lækir inn í heiðum séu tærir og hvítir, sem bendi til þess að ekki sé mikið laust efni á ferðinni.

Síðastliðinn föstudag var opnuð gestastofa á Þorvaldseyri þar sem er sýning á ýmsu sem tengist eldgosinu í Eyjafjallajökli, þar á meðal ljósmyndir og 20 mínútna löng kvikmynd. Ólafur segir aðsóknina gefa góð fyrirheit fyrir sumarið.

„Það hafa komið upp í 150 manns á dag,“ segir hann. „Fólk er mjög ánægt með að fá að upplifa þetta í kvikmynd og skoða sýninguna og geta svo farið út í umhverfið og séð hvað allt er orðið grænt og gott aftur.“ Fjallið sé þó kolsvart og jökullinn sömuleiðis.

„Þetta var heimsviðburður og nauðsynlegt að gera þessu skil. Og við fjölskyldan erum mjög ánægð að taka á móti fólki sem fer frá okkur ánægt,“ segir Ólafur að lokum.

mbl.is

Bloggað um fréttina