Fara yfir áætlanir um viðbrögð

Vegtálmar við Vík í Myrdal vegna eldgossin í Grímsvötnum.
Vegtálmar við Vík í Myrdal vegna eldgossin í Grímsvötnum. mbl.is/Ernir Eyjólfsson

„Ég held að fólk sé æðrulaust, heimamenn sem þekkja til og lifa ávallt með þessu,“ segir Elín Einarsdóttir í Sólheimahjáleigu, oddviti Mýrdalshrepps, um áhrif hræringanna í Kötlueldstöðinni á þá sem búa undir Mýrdalsjökli.

Elín segir að íbúar og yfirvöld hugsi sinn gang við þessar fréttir. „Nú erum við að fara yfir allar okkar áætlanir um viðbrögð, rifja upp. Við erum svo sem í ágætis æfingu,“ segir Elín.

Elín kennir við grunnskólann í Vík og tekur starfið þar sem dæmi. „Við erum að endurskoða áætlanir og samræma. Passa upp á að allir hnútar séu hnýttir. En við höfum svo sem verið klár fyrir þetta um áratugaskeið.“

Íbúar í Mýrdal og nærliggjandi sveitum hafa lent í ýmsum áföllum á síðustu átján mánuðum, öskufalli úr tveimur eldgosum og flóðum. Síðast miklum flóðum í Múlakvísl sem lömuðu samgöngur um Hringveginn um tíma. „Það sýnir sig við endurtekin áföll að þanþol fólks minnkar eitthvað. Þetta er þó ekki að trufla okkar daglega líf,“ segir Elín.

Hún telur ekki að umræðan um hættuna fæli ferðamenn frá. Sjálf segist hún vera að taka á móti 25 erlendum ferðamönnum. Þeim sé kunnugt um Kötlu. „Það liggur við að þeim þyki þetta spennandi, sumir líta á þetta sem upplifun á eldfjallaeyjunni sem við búum á.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert