Sjálfstæðisflokkurinn stærstur

Frá landsfundi Sjálfstæðisflokksins.
Frá landsfundi Sjálfstæðisflokksins. mbl.is/Golli

Sjálfstæðisflokkurinn er stærsti flokkur landsins og fengi um 50% fylgi ef gengið yrði til kosninga í dag, samkvæmt könnun Stöðvar 2 og Fréttablaðsins. Greint var frá þessu í fréttum Stöðvar 2.

Þá segir að um 17% myndu kjósa Samfylkinguna og svipaður fjöldi segist myndu kjósa Framsóknarflokkinn. Þá myndu rúm 13% kjósa Vinstri græn og tæp 3% Hreyfinguna.

Fram kemur að þessum niðurstöðum þurfi að taka með ákveðnum fyrirvara vegna þess hversu fáir hafi tekið afstöðu, eða aðeins tæp 44%.

Hringt var í átta hundruð manns, sem valdir voru af handahófi úr þjóðskrá, dagana sjöunda og áttunda desember.

Spurt var: Hvaða lista myndir þú kjósa ef gengið yrði til þingkosninga í dag?


mbl.is