Ósannfærandi fyrir dómstólum

Advice-hópurinn telur að ríkisstjórnin sé ekki sannfærandi í því hlutverki að flytja mál þjóðarinnar fyrir EFTA-dómstólum í Icesave-deilunni. Í ljósi þess að hún hafi viljað samþykkja það sem hópurinn kallar slakan samning og leggja hann á þjóðina.

Frosti Sigurjónsson, rekstrarhagfræðingur, einn Advice-manna bendir á að þeir sem hafi greitt atkvæði gegn samningnum í þjóðaratkvæðagreiðslu í vor hafi gert svo á þeim forsendum að sá samningur hefði verið verri en tapað dómsmál og ennfremur að mjög ólíklegt væri að Ísland myndi tapa slíku dómsmáli.

Hópurinn ályktaði í morgun um ákvörðun ríkisstjórnarinnar um að fyrirsvar málsins gagnvart EFTA-dómstólum lægi hjá utanríkisráðuneyti þrátt fyrir bókun meirihluta utanríkismálanefndar um að heppilegast væri að efnahags- og viðskiptaráðherra héldi áfram að halda utan um málið.

Ályktun hópsins í heild sinni:


Advice-hópurinn vekur athygli á því að ríkisstjórnin sem taldi rétt að samþykkja Icesave-samningana er í þröngri stöðu, sérstaklega hvað varðar að halda uppi vörnum í málinu fyrir EFTA-dómstólnum. Hætt er við að ríkisstjórn, sem kaus að samþykkja slaka samninga, sé hvorki sannfærð um traustan málstað Íslands, né sannfærandi frammi fyrir dómstólnum.

Draga má í efa að ríkisstjórn, sem kennd hefur verið við „afleik aldarinnar“, geti notið fyllsta trausts þjóðarinnar í málinu. Það að ganga gegn bókun meirihluta utanríkisnefndar um fyrirsvar málsins bætir ekki úr skák.

Það er afar óæskilegt að utanríkisráðherra sé ætlað forræði á aðildarviðræðum við Evrópusambandið og jafnframt að gæta hagsmuna Íslands í Icesave-málinu. Skorað er á ríkisstjórnina að endurskoða þá ákvörðun.

Að lokum vill Advice-hópurinn árétta mikilvægi þess að vörnin verði tekin föstum tökum. Það verður ekki gert án þess að teflt verði fram færustu sérfræðingum. Einnig má ekki vanrækja að kynna málstað Íslands fyrir erlendum fjölmiðlum og álitsgjöfum.

mbl.is