Neitar að hafa deytt barnið

Hótel Frón við Laugarveg
Hótel Frón við Laugarveg Mbl.is/Árni Sæberg

Agné Krataviciuté, sem ákærð er fyrir að hafa orðið nýfæddu barni sínu að bana, segist enn ekki skilja hvað gerðist. Hún segist sannfærð um að hún hafi ekki verið þunguð eða eignast barn. Aðalmeðferð í máli hennar hófst í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag.

Agné Krataviciuté er rúmlega tvítug og flutti hingað til lands frá Litháen í október 2010. Hún starfaði sem hótelþerna á Hótel Fróni við Laugaveg, en lík barnsins fannst  í ruslagámi við hótelið síðastliðið sumar. Hún er ákærð fyrir manndráp, með því að hafa  fætt  fullburða lifandi sveinbarn á einu baðherbergi hótelsins, veitt drengnum tvo skurðáverka á andlit með bitvopni og banað honum síðan með því að þrengja að hálsi hans uns hann lést af völdum kyrkingar. Hún var metin sakhæf af geðlæknum.

Myndir af líkinu vöktu ekki minningar

Agné neitar sök í málinu. Hún bar fyrir dómi í dag að hún hefði hvorki fætt barnið né deytt það og neitaði því jafnframt að hafa skorið í munnvik þess. Fyrir liggja hins vegar, að sögn sækjanda, óyggjandi sönnunargögn um að barnið sem fannst í plastpoka í ruslagámi sé Agné og fyrrverandi unnusta hennar. Sækjandi vísaði fram myndum af líki barnsins sem henni höfðu áður verið sýndar en hún sagði þær ekki vekja með sér neinar minningar.

Agné lýsti því fyrir dómi að hún hefði ekki borið nein einkenni þess að vera þunguð, þrátt fyrir að læknisfræðileg gögn bentu til þess að hún hefði gengið nánast fulla meðgöngu. Hún hafði reglulegar blæðingar á tímabilinu og bætti ekki á sig nema 2-3 kílóum. Hvorki hana né kærasta hennar grunaði að hún væri ólétt. Hún sagðist því hafa talið að um óvenjumiklar tíðablæðingar væri að ræða þegar henni tók að blæða við vinnu sína á Hótel Fróni. Hún hefði vaknað með verki í síðunni um nóttina og fengið íbúfen hjá tengdamóður sinni, en talið það vera tíðaverki.

„Veit ekki hvernig mér á að líða“

Laugardagsmorguninn 2. júlí 2011 hófst vinnudagurinn með hefðbundnum hætti. Agné þreif herbergi í samvinnu við aðra stúlku, sem fór svo niður til að taka til morgunmat. Stuttu síðar sagðist Agné hafa fundið svima, orðið vör við að henni blæddi og hún hefði sest á klósettið. Hún hafi verið ein á herberginu í um 10 mínútur á meðan vanlíðanin leið hjá en svo farið niður. Hún segist ekki hafa fjarlægt neitt sorp úr herberginu og sett í svartan ruslapoka og kannaðist ekki við að hafa notað hníf á herberginu. 

Þegar Agné kom niður tóku vinnufélagar hennar eftir því að hún var föl og blóð á buxunum hennar, að hennar sögn. Úr varð að henni var gefið leyfi úr vinnu, þótt hún segðist sjálf vilja halda áfram og klára daginn. Unnusti hennar sótti hana ásamt stjúpföður sínum og ákváðu þeir að fara með hana á sjúkrahús, en hún hafði ekki ætlað sér að leita læknisaðstoðar sjálf. Agné sagði að þegar læknar hefðu sagt henni á sjúkrahúsinu að hún þungunarpróf væri jákvætt hafi hún ekki áttað sig á því hvort hún hefði þá misst fóstur eða hvað hefði gerst.

„Ég veit ekki hvernig mér á að líða. Ég er ennþá að segja sjálfri mér: Ég fæddi ekki barn, ég var ekki ófrísk, ég gerði þetta ekki,“ sagði Agné aðspurð hvernig henni hefði liðið undanfarna mánuði síðan atburðirnir gerðust. Sér fyndist mjög erfitt að skilja þetta. „Ég bara er,“ sagði túlkur hennar að hún hefði sagt. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert