Framboð til forseta í þriðja sinn

Ástþór Magnússon tilkynnir forsetaframboð 2. mars 2012.
Ástþór Magnússon tilkynnir forsetaframboð 2. mars 2012. mbl.is/Golli

„Mér er sagt að í eldhúsum landsmanna sé mikið rætt um forsetakosningar og hvort ég bjóði mig fram. Fjöldi fólks hefur haft samband við mig eftir vangaveltur sitjandi forseta um framboð á Bessastöðum sl. mánudag og hvatt mig til framboðs. Ég hef ákveðið að vera við þessum óskum,“ segir Ástþór Magnússon í yfirlýsingu en hann hélt blaðamannafund í dag þar sem hann tilkynnti framboð sitt til forsetaembættisins.

Ástþór segir framboð sitt ennfremur vera áskorun til fjölmiðla, sitjandi forseta og stuðningsmanna hans um „að virða rétt þjóðarinnar til að velja sér forseta í opnu og lýðræðislegu ferli“. Þá vitnar hann í Kristján Eldjárn, fyrrverandi forseta Íslands, um að ekki sé æskilegt að forseti sitji lengur en 12 ár í embætti.

„Þótt sitjandi forseti hafi að einhverju leyti bætt ráð sitt eftir að ganga erinda útrásarvíkinga um árabil hefur þjóðin alla möguleika á að velja sér nýjan, hæfan og þrautseigan forseta. Ég býð mig nú fram í þriðja sinn til að virkja Bessastaði, efla lýðræðið og stuðla að friði í heiminum,“ segir Ástþór.

Hann segist ætla að gera sérstakan samning, Forsetasamning, við þjóðina nái hann kjöri. Í honum felist m.a. að forsetinn sé hlutlaust sameiningartákn þjóðarinnar, noti fjarfundarbúnað til þess að taka þátt í ríkisráðsfundum þegar hann er erlendis, leggi umdeild mál í dóm þjóðarinnar sem forsetinn telur ekki njóta meirihlutavilja hennar og beiti sér fyrir því að á Íslandi rísi stjórnstöð alþjóðlegs friðargæsluliðs sem geri einstökum þjóðum mögulegt að leggja niður heri sína.

mbl.is

Bloggað um fréttina