Óljóst hvað Geir átti að gera

Geir H. Haarde ásamt verjanda sínum, Andra Árnasyni eftir uppkvaðningu …
Geir H. Haarde ásamt verjanda sínum, Andra Árnasyni eftir uppkvaðningu Landsdóms í dag. Rax / Ragnar Axelsson

„Auðvitað verður að líta þannig á að hann sé að meginstefnu til sýknaður af þessum atriðum sem á hann voru borin og þar með eru allir þessir fimm ákæruliðir, í  fyrsta hluta ákærunnar, sem voru hryggjarstykkið í þessum málatilbúnaði öllum,“ sagði Andri Árnason, verjandi Geirs H. Haarde, fyrrverandi forsætisráðherra, um niðurstöður meirihluta landsdóms í málinu gegn honum í samtali við blaðamann mbl.is nú fyrir skömmu.

„Það er þá í raun og veru, að því leyti sem þessu var ekki vísað frá dómi, búið að sýkna hann af öllum efnisatriðum og stærstur hluti málsins fór auðvitað í þessa þætti,“ sagði Andri.

Óljóst með hvaða hætti Geir átti að bera mál upp í ríkisstjórninni

„Hinsvegar verður ekki fallist á að það hefði verið eðlilegt að dæma hann fyrir þetta meinta brot gagnvart 17. grein stjórnarskrárinnar. Kannski í fyrsta lagi vegna þess að þetta er mjög óljóst um refsiheimild, óljós athafnaskylda sem tengist þessu og þá hitt að það er líka óljóst með hvaða hætti hann átti að bera þetta upp við ríkisstjórnina vegna þess að það hefur ekki legið fyrir að hann hefði getað gert ákveðnar tillögur inn í ríkisstjórn og það er í raun heldur ekki bent á það í dómnum, að því er virðist, hvaða tillögur hann átti að fara með inn í ríkisstjórnina,“ sagði Andri.

Vafaatriði sem hefði átt að túlka ákærða í hag

„Það að refsa honum bara fyrir það að þetta hafi ekki verið tekið til umræðu án þess að þetta hafi þurft að fara í einhverja sérstaka afgreiðslu er náttúrlega mjög langsótt vegna þess að hugmyndin er auðvitað sú að inn í ríkisstjórnina fari mál til afgreiðslu. En það að líta þannig á að í þessu felist líka skýr skylda bara til þess að ræða mál almennt án þess að þau séu sérstaklega til afgreiðslu, það er ekki ljóst á hverju það byggist. Allavega verður að segja að vafa um þetta atriði hefði átt að túlka ákærða í hag.

Dómarar virðast hafa litið á brotið sem léttvægt

Það að honum skuli ekki gerð refsing bendir þá til þess að menn hafi litið á þetta sem léttvægt atriði, sem er þá ekki í samræmi við tilefni þess að líta á þetta sem brot vegna þess að það að líta á þetta sem brot er þá það að þetta hafi verið stórfelld vanræksla og þá er órökrétt að gera honum ekki refsingu fyrir það, þannig að það er eins og þetta hafi ekki verið alveg hugsað til enda,“ sagði Andri að lokum.

Geir H. Haarde eftir að dómur var kveðinn upp í …
Geir H. Haarde eftir að dómur var kveðinn upp í Landsdómi í dag mbl.is/Kristinn Ingvarsson
mbl.is