Heyrði tvær raddir í höfði sér

Guðgeir Guðmundsson leiddur í dómssal í morgun.
Guðgeir Guðmundsson leiddur í dómssal í morgun. mbl.is

Guðgeir Guðmundsson, sem játað hefur að hafa ráðist inn á lögmannsstofu og veitt Skúla Eggert Sigurz áverka, sagðist við aðalmeðferð málsins í Héraðsdómi Reykjavíkur morgun taka fulla ábyrgð á gjörðum sínum. Hins vegar hafi hann verið ósofinn og atvikið því þokukennt. Hann sagðist sjá eftir að hafa veitt Skúla áverka. „Þetta er ekki eitthvað sem á að gera, þetta er eitthvað sem enginn á að gera. Það er sama hvort ég man þetta allt eða ekki, ég vil taka fulla ábyrgð á því sem ég gerði.“

Guðgeir er ákærður fyrir tilraun til manndráps þegar hann stakk Skúla Eggert Sigurz, framkvæmdastjóra Lagastoðar, fimm sinnum. Lágmarksrefsing við slíkri ákæru er fimm ára fangelsi. Árásin átti sér stað 5. mars síðastliðinn.

Guðgeir játar að hafa veitt Skúla áverkana og sagðist frekar vilja að þetta hefði ekki gerst. Hann sagðist hafa sofið lítið vikurnar á undan og að árásin sé því hálf móðukennd. Hann hafi ekki verið með fulla hugsun og talsvert af undirliggjandi reiði.

Lögfræðistofa Skúla kom að skuldamáli Guðgeirs, en hann skuldaði 80 þúsund krónur. Skúli lækkaði skuldina um 30 þúsund krónur en Guðgeir gekk í skrokk á honum og veitti honum fimm alvarleg stungusár.

Saksóknari spurði Guðgeir hvort hann sæi eftir árásinni. Guðgeir sagðist hafa heyrt tvær raddir í hausnum á sér. Önnur reyndi að ná stjórn en hin reyndi að halda æsingnum áfram. Sem betur fer hélt þetta ekki áfram, sagði Guðgeir.

Þá spurði saksóknari hann um andúð hans á lögfræðingum. Guðgeir svaraði því til að hann hefði aldrei heyrt neitt jákvætt um lögfræðinga.

Sagðist hann hafa orðið fyrir einelti í skóla og hefði einu sinni áður misst stjórn á skapi sínu. Þá var hann í 7. bekk og ætlaði að stíga á höfuð þess sem lagði hann í einelti.

Man ekkert eftir sér í þrjár vikur

Aðalmeðferð hófst í árásarmálinu í morgun og stendur fram eftir degi. Skúli Eggert og Guðgeir báru báðir vitni í dómssalnum fyrir hádegi. Skúli var studdur inn í dómsalinn. Hann sagðist hafa byrjað að ganga á ný fyrir um mánuði, hefði lítið úthald og skerta hreyfigetu í hægri hendi. Hann sagðist ekki fá martraðir um atvikið en auðvitað sæktu á hann hugsanir um það.

Skúli sagðist ekki hafa tekið eftir stungunum sem slíkum, ekki fyrr en það fór að renna blóð. Þegar hann sá það spurði hann Guðgeir hvers vegna hann hefði gert þetta og svaraði hann því til að hann hataði lögfræðinga. Skúli sagði honum að hann væri ekki lögfræðingur og við það æstist Guðgeir allur upp, að sögn Skúla.

Skúli var með fullri meðvitund þar til hann var kominn á sjúkrahúsið. Svo liðu þrjár vikur þar til hann mundi næst eftir sér.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert